145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. félagsmálaráðherra hvað það varðar að auðvitað er ýmislegt sem þarf að skoða til þess að mæta þeim sjónarmiðum sem hv. málshefjandi rakti hér. Ég hef séð tölurnar frá Vestfjörðum og hugmyndin á bak við yfirfærsluna var sú að fatlað fólk gæti áfram flust milli landsvæða og að áfram yrði það ekki þannig að tilviljanir réðu því hvort fjármagn væri fyrir hendi til að þjónusta fatlað fólk, því að við vitum í sjálfu sér aldrei hvar einstaklingar með mikla þjónustuþörf fæðast eða hvert þeir kjósa að flytja. Við viljum hafa samfélagið þannig að þeir séu frjálsir og það sé jöfnunarhlutverk af hálfu hins opinbera til að jafna aðstöðu milli svæða.

Þegar málaflokkurinn var fluttur yfir var hann fullfjármagnaður. Mjög mikilvægt er að kveða skýrt á um það. Eftir niðurskurð áranna 2009 og 2010 var algengt að niðurskurður uppsafnaður í almennri stjórnsýslu væri 17–19%. Það voru einstakir yfirstjórnarliðir sem voru skornir niður svo tugum prósenta skipti. Uppsafnaður sparnaður eða niðurskurður í málefnum fatlaðra þessi tvö ár var 2,6% — ég endurtek 2,6% — ekki á einu ári, heldur á tveimur árum. Þannig var málaflokknum skilað í hendur sveitarfélaga með síðan 5% aðhaldskröfu sem var jafnharðan bætt með viðbótargreiðslum, einskiptisgreiðslum.

Síðan hefur komið í ljós að málaflokkurinn var rekinn í fjárhagslegu jafnvægi fyrstu tvö árin eftir yfirfærsluna. En það sem gerist er að SIS-matið verður til og einstaklingar öðlast sjálfstæðan rétt til þjónustu í samræmi við þörf. Fjárveitingu til málaflokksins var af hálfu ríkisins alltaf stýrt í gegnum fjárveitingavaldið og menn fengu bara þá þjónustu sem peningar voru til að veita. Með (Forseti hringir.) SIS-matinu öðlast einstaklingar rétt á þjónustu, persónubundinn rétt til þjónustu. Það kallar auðvitað á það (Forseti hringir.) að þjónustuþörfin eykst og fjárþörfin eykst. Það er ekki vond þróun, það er góð þróun, því að það tryggir betri (Forseti hringir.) þjónustu við fatlað fólk. Það er ríkisvaldsins síðan að tryggja að fjármunir séu til reiðu til að standa undir þeirri þjónustu í samræmi við þörf á hverjum stað.