145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:11]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf og nauðsynleg í samfélaginu í dag. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ingibjargar Þórðardóttur er þemað hjá okkur í velferðarnefndinni málefni eldri borgara. Það er gríðarlega spennandi og skemmtilegt verkefni að ræða þau mál og líka mjög nauðsynlegt. Ég tel að eitt af því sem þurfi að gerast á Íslandi sé að það verði hugarfarsbreyting gagnvart eldra fólki. Hér áður fyrr var fólk talið gamalt þegar það var orðið 50 ára, en hlutirnir hafa breyst gríðarlega á síðustu árum. Við fengum til dæmis kynningu á því í gær í velferðarnefnd að sú heilsuefling sem á sér stað hjá eldra fólki gerir það verkum að það er sprækara langt fram eftir. Það er líka vinna í gangi í þinginu og í nefndum um að auka sveigjanleika við starfslok, sem er gríðarlega mikilvægt eins og hefur verið komið inn á, og gefa þeim kost á því sem eru sprækir og heilsuhraustir að starfa áfram. Á sama tíma megum við ekki gleyma þeim hópi sem getur það ekki, því að það er náttúrlega stór hópur á Íslandi sem er slitinn og illa farinn af mikilli vinnu mjög snemma. Það er hópur sem við verðum líka að hugsa um.

Ég tel að lykilatriðið fyrir okkur öll sé sú hugarfarsbreyting að eldra fólk sé bráðnauðsynlegt á vinnumarkaði og ekki síst þegar maður fer að horfa á alla þessa uppbyggingu sem er fram undan — (Gripið fram í.) já, á þinginu líka — því að þá vantar fólk til starfa. Eldra fólk býr yfir gríðarlegri starfsreynslu og þekkingu sem fyrirtæki mega ekki missa. Það var gerð könnun á veikindaleyfi fólks í fyrirtækjum fyrir nokkrum árum síðan og í ljós kom að eldra fólk í fyrirtækinu var nánast aldrei veikt á meðan það yngra var mjög oft veikt. Við verðum því að halda í þennan mannauð, eins og komið hefur fram.