145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir afar góða, málefnalega og sannfærandi ræðu þar sem þingmaðurinn lýsti því hvernig afstaða hennar hefur breyst í tímans rás frá því að vera tiltölulega hliðholl breyttu fyrirkomulagi, a.m.k. opin fyrir breyttum verslunarháttum, en síðan farið að kynna sér málið. Ég staðnæmdist sérstaklega við frásögn hennar af starfi á vegum Norðurlandaráðs þar sem hv. þingmaður hefur komið að málum sjálf. Mig langar til að spyrja nánar út í þetta starf. Er að mati þingmannsins fylgst með þeirri umræðu sem hér fer fram? Er horft til þess fyrirkomulags sem Íslendingar búa við og síðan þeirra breytinga sem hugsanlega verða gerðar á verslun með áfengi ef þetta frumvarp nær fram að ganga, sem við mörg hver vonumst til að verði ekki?

Mér fannst góð hugtakanotkun þegar talað var um skaðaminnkandi stefnu. Við höfum talað um óágenga verslun. Það er enginn, eða fáir, að tala um að það eigi ekki að vera neitt aðgengi, menn vilja jafnvel jafnræði hvað aðgengi áhrærir, að það verði jafnræði með landsmönnum óháð búsetu, en menn vilja ekki ágenga verslun. Mjög margir þingmenn vilja skaðaminnkandi áfengisstefnu sem heilbrigðisyfirvöld leggja vissulega áherslu á að við fylgjum.