145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að svara því neitandi, ég get ekki séð slíkt fyrirkomulag fyrir mér. Annaðhvort ertu með einokun á áfengissölu eða ekki. Ef við horfum á bjórneyslu þá hefur á síðustu árum orðið mikil þróun í bjórgerð á Íslandi. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með því, við sem héldum að við gætum ekki búið til bjór. Það er mikil nýsköpun á þeim vettvangi og mikil menning komið upp í kringum það sem blómstrar ágætlega. En að sama skapi hefur það gerst að mjög stór hluti af áfengisneyslu Íslendinga og ekki síst ungmenna er bjór. Ef við ætlum að vera með þessa stefnu, þar sem við takmörkum aðgengi að áfengi, væri furðulegt að velja þá tegund sem hvað mest er neytt, ekki síst af ungu fólki, og setja hana í eitthvert annað kerfi. Ég verð því að svara neitandi.