145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti þetta vera mjög athyglisvert svar. Ég gerði tvennt í senn, að spyrja um álit hv. þingmanns á fyrirhuguðum breytingum eða þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu og síðan spurði ég um umræður í byggðarlaginu, hvað kæmi fram í máli manna þegar þessi áfengismál bæru á góma. Þá sagði hv. þingmaður að hún hefði nú ekki heyrt kröfuna óma mjög hátt eða hljóma mjög hátt um að fá brennivín eða áfengi í matvörubúðir, þvert á móti væru fáir sem viðruðu slíkar skoðanir. En það væri annað sem stæði upp úr þegar menn ræddu hagsmuni síns byggðarlags og þessa landshluta, það væri jöfnun, jöfnun raforkukostnaðar, jöfnun aðstöðu, ferðakostnaðar o.s.frv., námsaðstaða, þar vilja menn jafna.

Það hefur einmitt vakið athygli mína í umræðunni að talsmenn frumvarpsins hafa haft sérstakar áhyggjur af því að fólk á þéttbýlissvæðunum sé hugsanlega að niðurgreiða áfengi í dreifðum byggðum þar sem eftirspurn væri lítil. Þá hef ég spurt: Vilja menn virkilega fara inn í svipað fyrirkomulag með olíuna, bensínið, hafa mismunandi verð á bensíni á Reykjavíkursvæðinu eða höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Patreksfirði eða Vopnafirði? Nei, að sjálfsögðu viljum við jöfnun. En mér þótti það athyglisvert sem fram kom í máli hv. þingmanns að það sem upp úr stendur þegar þessi mál eru rædd á landsbyggðinni er jöfnuður.