145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef náttúrlega ekki umboð til þess að tala fyrir hönd annarra í þingsalnum, en fyrir mitt leyti langar mig til að spyrja hvort til greina komi að gera hlé á þessari umræðu og fresta henni fram yfir helgina þar til hæstv. heilbrigðisráðherra getur mætt á okkar fund. Ég veit að það er alveg hægt að ýta því út af borðinu og jafnvel túlka það sem hvert annað málþóf eða tilraun til tafa. Það má til sanns vegar færa að við erum að reyna að tefja málið í þeim skilningi að fresta því þar til ráðherrann kemur til fundar við okkur, en þetta er fullkomlega málefnaleg ósk. Það er fullkomlega málefnalegt og vísað er til ummæla hæstv. ráðherra sem hann hefur uppi í umboði ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegt að hann komi hingað og svari fyrir stjórnina, fyrir ráðuneyti sitt og fyrir sjálfan sig?