145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður tekur að sumu leyti dýpra í árinni en flestir hafa gert við þessa umræðu, dýpra í árinni en ég hef gert, en sennilega er þetta besta ræðan sem hefur verið flutt við þessa umræðu. Hún tekur á heimspekilegum vangaveltum. Hún tekur á praktískum, pragmatískum atriðum. Hún skoðar málið frá sjónarhóli þess sem neytir áfengis og einnig hinna sem málið snertir óbeint, fjölskyldur og aðstandendur þeirra sem búa við alkóhólismann í sinni tilveru.

Mig langar til að segja að þeir sem vilja ráðast í þær breytingar sem þetta frumvarp boðar hafa ákveðna sönnunarskyldu gagnvart þeim rökum sem hér voru reidd fram. Mér finnst að þeim beri skylda til að stíga fram og hrekja lið fyrir lið það sem hv. þingmaður sagði hér áðan. Sönnunarskyldan hvílir ekki á honum, sönnunarskyldan hvílir á þeim sem vill ráðast í þessar breytingar. Auðvitað á sá að njóta vafans sem hugsanlega verður fyrir skaða af þessum breytingum.

Mig langar til að beina einni spurningu til hv. þingmanns, af því það tíðkast nú í andsvörum, þó ég kæmi fyrst og fremst til að segja það sem ég hef hér sagt: Ættum við ekki að vera að ræða (Forseti hringir.) með hvaða hætti Áfengisverslun ríkisins gæti hugsanlega komið á ábyrgari hátt en hún gerir núna að dreifingu áfengis?