145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:42]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alkóhólismi er það sem kallað hefur verið prógressífur sjúkdómur. Hann tekur sér bólfestu og hann þróast og hann fer alltaf lengra og lengra. Það hefur verið rannsakað, þetta eru vísindi, með því að gefa rottum á tilraunastofu áfengi. Allar rottur sem er gefið áfengi á tilraunastofum ánetjast áfengi. Þegar þeim er gefið áfengi reglulega verða ekki bara einhver prósent þeirra að alkóhólískum rottum, þær verða það allar. Staðreyndin er sú að ef við aukum áfengisneyslu og ef við aukum aðgengi að áfengi og gerum það auðveldara fyrir fólk sem kannski er veikt á svellinu fyrir að nálgast það, þá munum við fjölga alkóhólistum. Það munu verða fleiri alkóhólistar á Íslandi eftir þessa breytingu heldur en fyrir. Tölfræðin segir okkur það. Vísindin segja okkur það. Kostnaðurinn mun þar af leiðandi aukast.

Röksemdir hv. þingmanns héldu vatni ef skatttekjur ríkisins af áfengissölu færu allar til þess að taka á við þann aukna kostnað sem yrði af aukinni áfengisdrykkju, en það er ekki þannig. Það er langt í frá. Það eru skatttekjur okkar allra sem eru notaðar í heilsugæsluna, í löggæsluna. Það eru skattpeningar mínir, ég sem vil ekkert hafa með þetta að gera, fer ekki í áfengisverslanir, nota ekki áfengi, sem fara í að mæta auknum kostnaði vegna hegðunar annarra, vegna neyslu annarra. Hvaða réttlæti er í því? Það er ekkert réttlæti í því. Það er ekki einu sinni þannig að tekjurnar af áfengisgjaldinu séu allar nýttar núna til forvarna og til meðferðarrúrræða, langt í frá. Ríkið tekur, ég man nú ekki töluna, það er langt síðan ég skoðaði þessar tölur, en mig minnir að það séu um 11 milljarðar á ári sem koma inn af áfengisgjaldinu og mjög lítill hluti af því er notaður.