145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hlynntur frelsi einstaklingsins. Ég tel að sérhver maður eigi að hafa rétt til að gera hvað eina sem hann vill á meðan það skaðar ekki þriðja aðila. Það sem mér hefur fundist eftirtektarvert hér í umræðunni er að menn sem koma hingað og lýsa mikilli ást á frelsinu segja: Einstaklingurinn á að hafa frelsi til að gera það sem hann vill en hann verður að taka ábyrgð.

Hv. þm. Róbert Marshall flutti hér þrusuræðu áðan þar sem hann tók þetta einmitt fyrir og sagði: Hvernig ætlar sá einstaklingur sem hefur gengið of langt í neyslu áfengis að standa undir ábyrgð gagnvart barni sem býr við ónýtt líf vegna ofneyslu einhvers í fjölskyldunni? Þennan þátt þurfa menn að hugsa út í.

Sömuleiðis þegar það blasir við að aukið aðgengi virðist leiða til aukinnar neyslu sem aftur virðist leiða til gríðarlegs skaða fyrir samfélög, samanber upplýsingar sem komu fram frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrr í dag varðandi Bretland þar sem kom fram að á hverjum einasta klukkutíma deyr einn Breti vegna ofneyslu áfengis og hátt á aðra milljón Breta leggjast inn á sjúkrahús vegna ofneyslu áfengis. Þá kemur auðvitað upp þessi spurning í mínum huga: Hvernig á einstaklingurinn að standa undir ábyrgð gagnvart þeim fjárhagslega skaða sem hann hefur valdið samfélaginu? Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna.

Eins og ég gerði játningu um hér áðan þá hef ég ekki lesið öll þau gögn málsins sem menn virðast hafa farið yfir en hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur fullvissað mig um að hann veit ekki um neina skýrslu eða rannsókn sem bendir til þess að þetta hafi ekki slæm áhrif.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hann að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hefur lagt fram mjög jákvæða og skýra stefnu um vímuvarnir, treysti (Forseti hringir.) sér ekki til að koma hingað til umræðunnar og gera uppskátt um það hvort hann telur að frumvarpið sem við erum að ræða (Forseti hringir.) sé í samræmi við þessa stefnu?