145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé vegna þess að þarna fara ekki saman orð og efndir. Hann getur ekki varið stuðning sinn við þetta frumvarp, ef hann er fyrir hendi, við eigum eftir að fá það fram, á sama tíma og hann heldur fram þeirri stefnu sem hann setti hér fram um áramótin 2013–2014.

Ég er sammála hv. þingmanni að það er grundvallaratriði að virða einstaklingsfrelsið, ég er algerlega sammála því. Mér finnst það vera grundvallaratriði og ég tek undir með þeim félögum hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og John Stuart Mill sem sagði um miðja 19. öldina að hver maður ætti að vera frjáls svo fremi sem það skaðaði ekki aðra, ég er algerlega sammála því. Við erum hins vegar að tala um frumvarp sem mun sannarlega skaða margt fólk. Út á það ganga allar þessar rannsóknarskýrslur.

Hvort fyrirkomulagið sem við búum við nú skerði frelsi einhverra — já, það gerir það. Skerðir fyrirhuguð breyting eða tillagan um breytingu frelsi einhverra? Já. Hverra? Hún skerðir frelsi samfélagsins til að koma á fyrirkomulagi sem er hagstætt fyrir neytendur, sem er í samræmi við lýðheilsusjónarmið og tryggir hagsmuni ríkissjóðs. Það á að leggja bann við slíku fyrirkomulagi þannig að frumvarpið sem við erum með til umræðu skerðir frelsi samfélagsins. Skerðir fyrirkomulagið sem við búum við nú frelsi einhverra? Já, það skerðir frelsi stóru verslunarkeðjanna sem telja sig hafa fjárhagslega hagsmuni af því að fá þessa verslun til sín. Að þessu leyti snýst þetta mál um hagsmuni (Forseti hringir.) og það snýst um frelsi samfélagsins annars vegar og frelsi fárra, stórra verslunaraðila hins vegar.