145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[15:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það má orða það sem svo að ég ætli að tala hér um verðmætasköpun því að ég ætla að tala um heilbrigðiskerfið. Ég vil ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um þau verkföll sem nú standa yfir enn eina ferðina og hafa mjög alvarleg áhrif á heilbrigðiskerfið eins og ýmis önnur kerfi hér á landi. Ég vil þá líka lýsa yfir áhyggjum af því að hæstv. fjármálaráðherra virðist líta svo á að fólk í verkfalli sé frekjur en sé ekki að nýta neyðarrétt launafólks til að knýja á um réttláta skiptingu á þjóðararðinum. Það er það sem nú er í gangi. Og nú eru lægst launuðu ríkisstarfsmennirnir sem eru komnir í verkfall sem hefur áhrif á 170 ríkisstofnanir og kemur auðvitað enn eina ferðina mjög illa niður á heilbrigðiskerfinu. Þar eru 1.600 manns af 5.100 í verkfalli. Þar á bæ er sagt að þetta sé alvarlegasta verkfallið hingað til því að það hafi svo víðtæk áhrif. Það er oft þannig að þegar stoðþjónustan hverfur áttar fólk sig á hversu mikils virði hún er þó að í henni felist oft og tíðum verst launuðu störfin.

Á sama tíma og þetta gengur yfir, eins og á Landspítalanum, þá vantar gríðarlega fjármuni í viðhald og rekstrarframlög vegna aukins mannfjölda. Það hefur ekki enn þá verið unnið á þeim biðlistum sem sköpuðust í síðasta verkfalli. Á sama tíma og ástandið er svona á Landspítala og ýmsum öðrum heilbrigðisstofnunum eru sérgreinalæknar að opna nýjar stofur úti í bæ og jafnvel einhvers konar mini-sjúkrahús þannig að fjármunirnir virðast vera til, þeir fara bara ekki á rétta staði.

Það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra að er: Hvernig ætlar hann að vinda ofan af þessari þróun í heilbrigðiskerfinu og standa vörð um heilbrigðisþjónustuna, heilbrigðisstarfsfólk (Forseti hringir.) og sjúklinga? Það þarf að gera með auknum (Forseti hringir.) fjármunum og þeim þarf að beina þangað sem þjónustan nýtist (Forseti hringir.) okkur sem best.