145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég er líka sammála því að auðvitað vega hagsmunir barnsins þyngst þegar á hólminn er komið. Ég hef velt því upp áður hvaða áhrif það muni hafa á sjálfsmynd barnsins þegar það er farið að lifa sínu lífi vegna þess að við vitum að þær flækjur sem eru í fjölskyldumynstri dagsins í dag geta haft mikil áhrif, svo að það sé nú bara sagt.

Svo verð ég líka að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi hér að við þurfum engu að síður að mæta með einhverjum hætti þeirri ósk sem liggur þarna að baki. Það eru margir úti í samfélaginu sem vilja stofna til fjölskyldu með börnum en geta það ekki líffræðilega. Hv. þingmaður nefndi að við þyrftum að fara yfir aðra möguleika. Ég held til dæmis að við séum komin með of mikið af girðingum þegar kemur að tæknifrjóvgun. Hún er líka gríðarlega dýr. Ég held að ríkið eigi að horfa í það hvort hægt sé að styðja betur við fjölskyldur sem það gera og síðan ættleiðingarnar. Hvers vegna gerum við kröfur sem snúa að þyngd? Ég held að aldurinn sé líka of lágur miðað við hvað lífaldur á Íslandi er hár o.s.frv. Það er þá spurning hvort við eigum ekki að horfa á þetta allt saman heildstætt og reyna að liðka til og styðja betur við fjölskyldur sem fara þá leið að ættleiða eða annað þannig að það geti verið raunhæfur kostur fyrir fólk hér á landi í auknum mæli.