145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi talað um formbreytingu í máli mínu og tek athugasemdir hv. þingmanns til mín. Ég vil hins vegar segja að formbreyting getur verið mjög mikilvæg, þ.e. hún þarf ekki endilega að snúast um form. Og það er mitt mat eftir að hafa kynnt mér þetta mál allrækilega að að baki þessari formbreytingu liggi nefnilega engin fagleg rök og ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Það að tala um formbreytingu má ekki verða til að smækka málið niður í að eingöngu sé um formbreytingu að ræða. Um er að ræða formbreytingu sem ekki er studd faglegum rökum. Þá hljótum við þingmenn sem hér vinnum og störfum við það að veita framkvæmdarvaldinu aðhald að spyrja okkur: Hvers vegna er verið að ráðast í slíkar breytingar nema til þess að færa málaflokk sem krefst fagþekkingar og sérþekkingar undir pólitíska stjórn? Ég er algerlega ósammála þeirri stefnubreytingu þótt hún sé falin með þessari formbreytingu.