145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar fyrir greinargerð hennar fyrir málinu við upphaf 2. umr. og einnig talsmönnum minni hlutans í nefndinni fyrir þau sjónarmið sem þeir hafa fært hér fram. Það verður að segja að það eru auðvitað vonbrigði að sjá þetta mál með þessum hætti í þingsalnum á þessum tímapunkti af fjölmörgum ástæðum.

Landsstjórninni, bæði ríkisstjórn og þingi á hverjum tíma, er ótölulegur fjöldi verkefna fyrir höndum og það er takmarkaður tími, takmarkaðir fjármunir og takmörkuð aðstaða til að taka á þeim fjöldamörgum hlutum sem hverju sinni þarf að takast á við, ekki síst á umbrotatímum eins og við höfum lifað hér á Íslandi. En þá er auðvitað gríðarlega brýnt til að landsstjórnin sé farsæl, að ríkisstjórn og þing forgangsraði verkefnum sínum með þeim hætti að tekið sé á þeim þáttum sem bæta þarf úr, sem þarf að laga, sem eru með þeim hætti að við erum ekki sátt við þau, og styrki heldur þá þætti þannig að við getum verið stolt af þeim og ánægð með skipan þeirra.

Það er nú ekki flóknara en svo að hér er verið að fara þvert gegn þessu skynsamlega verklagi við landsstjórn, hér er verið að fara að stofnun sem reynst hefur vel og sómi hefur verið að. Hér er í engu verið að taka á því sem úr lagi er í þróunarsamvinnumálum.

Hvað er það á sviði þróunarsamvinnumálanna sem við þurfum að taka á? Við hvað á utanríkisráðherrann og utanríkismálanefndin og formaður utanríkismálanefndar að fást í þessum málaflokki nú þegar hillir undir lok kjörtímabilsins og er jafnvel styttra í lok starfstíma utanríkisráðherrans sjálfs? Það er auðvitað það fjármagn sem varið til þessa þáttar af okkar hálfu. Það hefur um langan tíma verið þannig að framlög okkar, ríkrar þjóðar, til þróunarsamvinnumálanna hafa verið skammarlega lág og hefur verið til þess vilji að auka þau, ná svipuðu hlutfalli í þessi framlög og löndin hér í kringum okkur og finna má í markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem við höfum lýst yfir stuðningi við. Er verið að gera það? Nei. Hér eru hvorki utanríkismálanefndin, hv. formaður hennar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, né hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, að vinna að því að sá þáttur sé lagaður. Þó minnist ég þess fyrir ekki mörgum kjörtímabilum síðan að meðal annars hafi framámenn í Sjálfstæðisflokknum haft metnað til þess, ég nefni menn eins og Geir Haarde og Árna Mathiesen, gert metnaðarfulla áætlun í samstarfi við aðra flokka um það hvernig auka mætti þessi framlög. Við efnahagshrunið náðu þær áætlanir náttúrlega ekki fram að ganga, en það er sannarlega það verkefni sem menn ættu að vera að vinna að þegar komið er fram undir lok eða a.m.k. vel inn á síðari hluta kjörtímabils, að auka framlögin í málaflokknum. Nei, það er ekki verið að gera. En hvað má þá segja að hafi verið gott í þessum málaflokki í þinginu? Það sem hefur verið gott í þessum málaflokki í þinginu er að þetta hefur verið einn örfárra málaflokka þar sem verið hefur þverpólitísk samstaða um, þar sem farið hefur verið í viðamikla samstöðu stjórnmálaflokkanna um stefnumörkun og menn hafa rætt sig að niðurstöðu um það hvernig væri best að skipa þessum málum og hafa flokkarnir átt sína fulltrúa sem fylgst hafa með starfinu í Þróunarsamvinnustofnun og komið að því. Bein tengsl á milli stjórnmálanna og góð þverpólitísk samstaða.

Hvað er verið að gera í þessu máli? Er verið að taka lengra jákvæðan árangur í stjórnmálastarfinu á Íslandi? Er verið að styrkja þann jákvæða þátt og efla hann? Nei, því miður. Verið er að sundra samstöðunni, verið er að spilla því þverpólitíska starfi sem hér hefur verið unnið. Það kom kannski ekki á óvart frá hæstv. utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni, að hann lét fá sig af einhverjum ástæðum til að flytja þetta frumvarp sem svo margir ráðherrar hafa ekki viljað flytja inn í þingið vegna þess að þeir hafa vitað sem er að það er vont mál. Það er kannski ekki ástæða til að vera hissa núna þegar hæstv. ráðherra lagði þetta vonda frumvarp fram í annað sinn jafn einarðlega og hann hafði gengið fram í málinu. En ég verð að lýsa nokkrum vonbrigðum með formann utanríkismálanefndar, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að hún skuli leggja málið óbreytt hér inn til 2. umr.

Ég minnist þess að hafa heyrt hv. þingmann tala mikið og lengi um það í okkar samfélagi hversu mikilvægt það sé að bæta stjórnmálamenningu í landinu, auka samvinnu og samráð, faglega vinnu, leggja áherslu á hið pólitíska samtal, og ég man ekki hvað það er annað af slíkum orðasamböndum sem ég hef heyrt hv. formann utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fara með á sínum pólitíska ferli. Og nú reynir á það með hvaða hætti þessum sjónarmiðum er beitt í formennsku fyrir utanríkismálanefnd og verður að segja þá sögu eins og hún er, að þetta deilumál er bara ljósritað óbreytt með hraði út úr nefndinni og afgreitt með þeim hætti af formanni utanríkismálanefndar hingað inn í þingsalinn að ég er ekki viss um að það sé boðlegt. Mér er að minnsta kosti sagt að hér sé ekki aðgangur fyrir þingmenn að fundargerðum nefndarinnar um efnið, að hér sé ekki aðgangur að þeim þremur umsagnarbeiðnum sem lagðar voru fram og málið er rifið út úr nefndinni, að því er virðist fullkomlega að ástæðulausu, því að enn erum við bara í októbermánuði á heilum löngum þingvetri. Og jafnvel þótt það væri niðurstaða formanns utanríkismálanefndar að óhjákvæmilegt væri að afgreiða málið á endanum út í ágreiningi er erfitt að skilja hvað það er sem knýr formanninn til að afgreiða málið út núna og verða ekki við óskum um frekari umfjöllun í nefnd. Það má auðvitað bæta milli 2. og 3. umr. með vandaðri umfjöllun í nefndinni þegar umræðan um það hefur farið fram í þingsal.

Eitt af þeim atriðum sem einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af er sú viðleitni framkvæmdarvaldsins sem löggjafinn þarf að gæta að, að ná undir sig sjálfstæðum stofnunum ríkisins, auka völd ráðuneyta og völd ráðherra í málaflokkum með þeim hætti ýmist að sameina stofnanir í eina þar sem ráðherra nær þá að skipa nýja yfirstjórn þeirra stofnana og auka með því sín pólitísku völd, eða sameina stofnanir inn í ráðuneyti eins og hér er lagt til. Í okkar litla samfélagi hefur það verið lykilatriði í því efni að forðast pólitíska spillingu í stjórnsýslu, eða draga úr henni a.m.k. eins og kostur er, að hafa í landinu sterkar, sjálfstæðar stofnanir utan ráðuneyta armslengd frá ráðuneytunum. Við þekkjum bæði fræðilegar rannsóknir á þessu og mörg góð dæmi um hvað sjálfstæðar stofnanir hafa skipt miklu máli til að tryggja fagleg vinnubrögð og forða óeðlilegum pólitískum afskiptum. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar þróunarsamvinna er annars vegar? Já, það er raunar jafnvel ríkari ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þáttum þegar þróunarsamvinna er annars vegar en í mörgum öðrum málaflokkum ríkisins. Það er ekkert séríslenskt. Það er einfaldlega alþjóðlega viðurkennt að í fáum málaflokkum er jafn rík þörf á því að koma í veg fyrir hvers kyns spillingu og sóun og í málaflokki þróunarsamvinnu. Í ófáum málaflokkum er það mikilvægara að fagleg sjónarmið ráði för við ráðstöfun fjármuna, bæði vegna þess að viðtakendur þróunarsamvinnunnar hafa oft yfir að ráða fremur veikri stjórnsýslu sjálfir og eins vegna þess að hér er oft og einatt um að ræða umtalsverða fjármuni og í þróunarsamvinnu, sérstaklega sumra ríkja, er auðvitað mikið um samvinnu við atvinnulíf og fyrirtæki og þess vegna margvíslegar hættur á fyrirgreiðslum og pólitískri spillingu. Þetta hefur auðvitað verið ein af hinum faglegri röksemdum gegn því að færa málaflokkinn inn í ráðuneytið. Ég hef ekki heyrt, hvorki við langar og ítarlega umfjöllun um málið á síðasta þingi né á umfjölluninni á þessu þingi, neinar röksemdir, a.m.k. að gagni, í hina áttina. Ég held að það lýsi svo sem málinu og málatilbúnaði í heild sinni að hvorki um þetta atriði né nokkur önnur í sjálfu sér hafa verið færð fram nokkur efnisrök fyrir því að þessar breytingar eigi að gera og því síður fyrir því að þær eigi að hafa einhvern forgang í þessum málaflokki þar sem svo mörg önnur brýn verkefni blasa við.

Einnig hefur verið bent á, og er auðvitað ástæða til að halda sérstaklega til haga, að það eru engar faglegar úttektir eða faglegar aðfinnslur við starf Þróunarsamvinnustofnunar sem kalla á að gera þar á breytingar, í raun og veru er málið þvert á móti þannig vaxið að Þróunarsamvinnustofnun hefur ekki bara getið sér ákaflega gott orð fyrir störf sín hér innan lands heldur líka á alþjóðlegum vettvangi. Það er því eðlilegt að spurt sé eins og ég spurði við 1. umr. um málið upp á ensku, með leyfi virðulegs forseta, eins og menn segja: „If it's not broken, why fix it?“ Ef ekkert er að, hvers vegna ætti þá að laga það? Þegar um er að ræða stofnun sem sinnt hefur verkefnum sínum svo vel þá verða auðvitað að vera sterkar röksemdir fyrir því að hverfa frá því skipulagi sem við höfum nú. Þær röksemdir hafa ekki komið fram í þessari umræðu.

Málið gefur líka tilefni til að spyrja hvort einhver stjórnarstefna sé uppi þegar kemur að stjórnsýslunni og fyrirkomulagi hennar, vegna þess að þó að almennt talað hafi viðleitnin á undanförnum árum verið að reyna að sameina stofnanir inn í ráðuneyti eða sameina stofnanir í nýjar stærri stofnanir sem hinn pólitíski ráðherra hefur þá getað skipað forustu fyrir, höfum við dæmi um hið gagnstæða. Stjórnarmeirihlutinn stóð nýverið í ræðustól þingsins og fært fram rök fyrir því að í menntamálum væri sérstök ástæða til að setja á fót nýja stofnun og taka verkefni út úr ráðuneytinu, miklu umfangsminni en hér um ræðir. Ég verð að segja að ég hef engar fullnægjandi skýringar heyrt af hálfu stjórnarliðsins hvernig það hangir saman. Og ég fæ ekki betur séð en að röksemdirnar fyrir annarri aðgerðinni hljóti að vera um leið röksemdir gegn hinni aðgerðinni. Það vekur auðvitað spurningar um á hvaða leið stjórnarmeirihlutinn er í því með hvaða hætti hann skipar verkefnum stjórnsýslunnar.

Ég verð að ljúka máli mínu á því að lýsa hryggð yfir því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki séð að sér varðandi þetta mál eftir þá umfjöllun sem það hlaut á síðasta þingi. Það hefur blasað nokkuð vel við í þingsalnum að stuðningsmaður málsins er einn í þinginu, það er hæstv. utanríkisráðherra. Ekki hefur orðið mikið vart við mikinn stuðning annars staðar við málið og er dapurlegt að dagskrá þingsins sé háttað þannig að áhugamál eins þingmanns sé hér haft í algerum forgangi og öllu öðru rutt af dagskránni til að ljúka því, því að engar röksemdir hafa verið færðar fram fyrir málinu. Í raun og veru virðist hér aðeins vera um að ræða þrákelkni ráðherrans og hún virðist hafa knúið á um þá hraðafgreiðslu sem málið fær inn í þingsalinn til 2. umr.

Ég legg áherslu á að þó að málið hafi verið afgreitt hratt úr nefndinni er full ástæða til að ræða það vel og vandlega við 2. umr. og jafnvel taka það til nefndar á ný milli 2. og 3. umr. En auðvitað vekur þetta hjá manni spurningar um hvort hin hraða meðferð málsins sé í einhverju samhengi við yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins í Ríkisútvarpinu í morgun um að vænta megi uppstokkunar á ríkisstjórninni og því hverjir eru ráðherrar í henni og hverjir fari með hvaða málaflokka nú á allra næstu mánuðum.