145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf býsna máttug og sannfærandi rök fyrir því að leggja niður jafn mikilvæga og farsæla stofnun og ÞSSÍ hefur reynst vera um langt árabil. Það hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum umræðuna hér í dag og þá umræðu sem hefur farið fram áður að rökin fyrir þessum meginbreytingum á stjórnsýslu málanna eru engin. Þvert á móti styður margt að núverandi fyrirkomulag sé viðhaft áfram.

Þegar lesið er í gegnum nefndarálit meiri hlutans og reynt að draga út úr því hver markmiðin eru og hvað af þeim eigi að leiða til þess sem eigi að verða málaflokknum til framdráttar og styrktar, þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari.“

Síðar segir:

„Gert er ráð fyrir að breytingin muni stuðla að auknum árangri af þróunarstarfi Íslands til lengri tíma litið.“

Þessum markmiðum með breytingu á fyrirkomulaginu er ekki fylgt eftir með nokkrum einustu rökum. Ekki eru færðar fram neinar ástæður fyrir breytingunni. Það geta svo verið alls konar getsakir og vangaveltur um hvað valdi þessu og af hverju kapp sé lagt á það á einhverjum stöðum í kerfinu að keyra þessa breytingu í gegn. Margir ráðherrar hafa fengið málið í fangið og allir, þar til sá er nú gegnir embættinu, komust að sömu afdráttarlausu niðurstöðunni, þ.e. að það sé alls ekki málaflokknum til framdráttar. Það er nefnilega bara eitt sem skiptir máli þegar upp er staðið og það er að þróunarsamvinnumálunum sé betur fyrir komið eftir breytingu en áður.

Þó að Íslendingar hafi verið eftirbátar annarra norrænna þjóða og líkast til flestra evrópskra þjóða í framlögum til þróunarsamvinnumála sem hlutfall af landsframleiðslu hafa þeir fjármunir sem til málaflokksins hafa verið lagðir verið nýttir mjög vel. Árangurinn af starfi stofnunarinnar hefur verið eftirtektarverður. Það hefur margoft komið fram í umræðu liðinna ára að margt hefur verið gert sérlega vel og spilað vel úr tiltölulega litlu. Okkar fólk á vettvangi hefur verið að miðla sérþekkingu Íslendinga á mörgum sviðum eins og nefnt var áðan í sambandi við nýtingu auðlinda, fiskveiðar og á mörgum sviðum þar sem Íslendingar standa hvar fremst í flokki þjóða.

Þeir sem lesa reglubundið veftímarit stofnunarinnar, Heimsljós, fá þar mjög afgerandi fréttir og jákvæðar af starfinu sem þar er unnið. Það er kerfisbundið og öflugt og maður hefur á mörgum umliðnum árum fyllst aðdáun á því hve vel er á málum haldið. Það hefur enginn ágreiningur, svo að ég muni eða viti til, nokkurn tíma risið um starf og áherslur stofnunarinnar í þessum mjög svo mikilvæga málaflokki.

Það var án efa einn af hápunktum síðasta kjörtímabils, og er þó af mörgu að taka, þegar samþykkt var árið 2011 þingsályktun um að auka framlög til þróunarmála hratt og ná 0,7% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2017. Hefði það gengið eftir hefði það verið mikið ánægju- og fagnaðarefni og Íslendingum öllum til mikils sóma. Af því að þó við hefðum gengið í gegnum erfiða tíma og upplifað miklar sveiflur og meiri en kannski nokkurn tíma áður, þá erum við samt sem áður enn þá, og stefnum í að verða áfram, meðal efnuðustu og best megandi þjóða í heiminum og höfum af mörgu að miðla til að spila úr fjármununum sem við verjum til málanna. Það skiptir ekki eingöngu máli að setja aukið fé til málaflokksins heldur skiptir jafnmiklu máli hvernig það er notað. Ég hef fylgst ágætlega með þessu — ég sat í nokkur ár í utanríkismálanefnd þingsins þar sem þetta mál kom að sjálfsögðu af og til til umræðu og umfjöllunar — og hef alltaf verið á þeirri skoðun að við höfum verið á réttri leið í þessum málum. Mjög öflugir einstaklingar hafa valist til forustu í málaflokknum og þeir hafa spilað sérstaklega vel úr þeim áherslum sem við höfum lagt á málin.

Það eru því mikil vonbrigði að málaflokkur sem almennt ríkir mikil sátt um — menn geta deilt um það hve hratt við eigum að ná markmiðum um hlutfall af þjóðarframleiðslu og fleira í málaflokkinn og hvenær rétti tíminn sé til þess og hve langt við eigum að ganga til að ná þeim markmiðum sem hér hefur verið vísað til að vestrænar þjóðir nái, en það hefur aldrei verið mikill ágreiningur um að verja umtalsverðum fjármunum, þekkingu og hugviti til að skila okkar til þeirra þjóða sem verr standa. Ekki er hægt að bera þá örbirgð og eymd og það bjargarleysi sem ríkir víða saman við aðstæður okkar hér og þess vegna eigum við að vera stolt af hverri einustu krónu sem við verjum til þessara mála og ekki síst þeirri aukningu sem stefnt var að að ná — og hefði gengið eftir að tveimur árum liðnum hefði það óheillaskref ekki verið stigið að draga verulega úr þar aftur.

Með því frumvarpi sem nú liggur fyrir, um að leggja stofnunina niður án þess að nokkur einustu rök standi til þess — ef í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hluta, sem við ræðum hér í dag, hefðu komið fram einhver efnisleg og fagleg rök fyrir því að breyta fyrirkomulaginu þá væri umræðan hérna allt öðruvísi. Þá værum við að ræða hvort gæti vegið þyngra að ná þeim mögulega ávinningi sem breytingin hefði í för með sér miðað við það að viðhalda núverandi fyrirkomulagi áfram. En þar sem engin rök eru fyrir breytingunni þá er umræðan öll í sjálfu sér á einn veg. Eins og ég nefndi hér áðan hefur það gengið sem rauður þráður í gegnum alla umræðuna að engin rök eru fyrir breytingum. Ef engin rök standa til að leggja niður heila stofnun, og mjög mikilvæga stofnun í öllu tilliti, þá hlýtur það að kalla á margar spurningar.

Af hverju að rjúfa ágæta sátt og skapa bullandi ágreining um málaflokk sem skiptir máli? Allur þorri almennings er mjög á þeirri skoðun að við eigum að leggja það til málanna sem við getum hverju sinni. Það eru engin rök tínd til, það eru engar ástæður taldar fram fyrir því að breyta afskaplega góðu og árangursríku fyrirkomulagi. Sá rökstuðningur sem dreginn er til er ruglingslegur og nokkuð villandi og framsögumaður álits minni hluta benti mjög afdráttarlaust á það í ræðu sinni hér áðan að þar gætti margháttaðs misskilnings og vitleysu. Það er því mjög óþægilegt ef keyra á slíkt mál í gegnum þingið í bullandi ágreiningi við minni hlutann og að því er virðist í besta falli í miklu áhugaleysi meiri hlutans.

Það er nokkuð sláandi þátttökuleysi stjórnarliða í umræðu sem er mjög mikilvæg; það skiptir mjög miklu máli hvernig við höldum á þróunarsamvinnumálum. Þátttökuleysið segir mikla sögu. Það er örugglega ekki af áhugaleysi þannig að leiða má að því líkur að í besta falli sé blendinn stuðningur við málið. Af hverju það hefur náð svona langt ef svona lítill stuðningur er við það er ráðgáta í sjálfu sér, skiptir ekki öllu máli hér en það er í raun dapurlegt að keyra mál með þessum hætti í gegnum þingið þegar óskaplega lítill stuðningur virðist vera við það. Eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi áðan þá koma mörg mál hér í gegn sem ágreiningur er um milli meiri hluta og minni hluta, en það liggur þó fyrir af hverju hann er. Hann getur verið hugmyndafræðilegur eða faglegur eða annars konar, einhvers konar forgangsröðun legið að baki þeim ágreiningi um framgöngu og framvindu mála. Það er það sem er svo skrýtið við þessa umræðu — þegar maður fór að lesa sér til um þetta og undirbúa sig fyrir þátttöku í umræðu um málaflokk sem er greinilega mikill áhugi á meðal mjög margra þingmanna flokkanna sem skipa stjórnarandstöðubekkina tímabundið — að engum faglegum og efnislegum rökum sé teflt fram í brennidepli umræðunnar þannig að við getum tekist á um það málefnalega hvort fyrirkomulagið sé mögulega betra. Það er svolítið eins og við séum að tala við sjálf okkur um þetta af því að engin rök eru tínd til fyrir breytingunum en fjöldinn allur af rökum er talinn fram fyrir því að viðhafa núverandi fyrirkomulag því að það hefur einfaldlega reynst framúrskarandi vel og í raun og veru hefur enginn borið brigður á það.

Maður veltir því fyrir sér hvort ágreiningur hafi komið upp einhvers staðar í kerfinu eða árekstrar eða skaranir á milli ráðuneytis og stofnunar en það hefur ekki komið skýrt fram og örugglega hefur það ekki verið alvarlegt. Framsögumaður minni hluta og margir aðrir hafa vísað til þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu sem fyrrverandi ráðherra utanríkismála, Davíð Oddsson, komst að á sínum tíma og maður fær ekki betur séð en sú niðurstaða hans hafi verið á þann veg að það væri stofnuninni og framvindu málanna til heilla að færa frekari verkefni þangað inn. Það eru þá vísbendingar í þá áttina að ganga lengra í að færa verkefnið frá ráðuneytinu til stofnunarinnar sem snýr að þessum málaflokki. Það eru sem sagt engar málefnalegar forsendur fyrir því að leggja stofnunina niður.

Í áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið gott starf, nýmæli og ferskleiki í vinnubrögðum stofnunarinnar hafa vakið verðskuldaða athygli annarra þjóða eins og birtist í því að stofnuninni hefur tekist að fá yfir 700 millj. kr. frá erlendum stofnunum inn í íslensk verkefni.“

Það skiptir mjög miklu máli og oft hefur verið bent á það að þróunarsamvinnustofnanir annarra landa hafa tekið eftir því hve vel sú íslenska hefur haldið á sínum málum.

Það hafa heldur engin dæmi komið fram við umfjöllun málsins um að nokkru sinni áður hafi stofnun verið lögð niður í heilu lagi og verkefni hennar færð inn í ráðuneyti. Menn hafa bent á tilkomu Menntamálastofnunar sem ég held, að því er ég fæ best séð, að hafi verið mjög skynsamleg ráðstöfun. Í greinargerð með frumvarpi um Menntamálastofnun kemur fram að tvær aðrar stofnanir hafi verið sameinaðar, Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, og að til standi að færa til stofnunarinnar önnur og aukin verkefni úr ráðuneytinu. Þá væri um að ræða stóra og öfluga stofnun á sviði menntamála sem færi með námsmatið og námsgögnin og ýmislegt annað sem færi mjög vel með þeirri starfsemi. Öll útvistun sem ráðuneytin gera í slíkri vinnu er alltaf til bóta. Þau gera best þegar þau geta sinnt með öflugum hætti yfirliti og eftirliti með sínum málaflokki eins og kostur er hverju sinni og að sjálfsögðu smíð löggjafar, en nýjungar og breytingar og ýmislegt annað kallar á það hverju sinni.

Það rennir stoðum undir efasemdir og andstöðu við málið að markmið núverandi ríkisstjórnar í þróunarsamvinnumálum hafa ekki virst vera neitt sérstaklega háleit þegar litið er til þess að þetta stóra skref var stigið til baka að því er varðar aukningu framlaga. Þess vegna vakna áhyggjur af því að verið sé að draga enn frekar máttinn úr mjög vel heppnuðu starfi, sem er starf Þróunarsamvinnustofnunar um langt árabil. Í frumvarpi og í greinargerðum er bent á að þetta sé gert til að koma í veg fyrir skörun, óhagræði og tvíverknað í rekstri og stjórnun, óþarfaflækjustig og ýmislegt annað, en það hefur þetta allt verið hrakið. Slíkar fullyrðingar eiga engan rétt á sér sem rökstuðningur við meginbreytingar á stjórnsýslufyrirkomulagi, hvorki á þessu sviði né öðru, nema að slíkum fullyrðingum fylgi sannfærandi röksemdafærslur sem undirstriki þá að þetta sé ómögulegt og þetta dragi kraftinn og máttinn úr starfinu; að það þurfi að breyta þessu til að okkur gangi enn betur að ná árangri á sviði sem við höfum náð afskaplega góðum árangri á. Margt hefur nú farið úrskeiðis í íslensku samfélagi á mörgum liðnum árum en það stendur þó eftir að á þessu sviði höfum við staðið okkur sérstaklega vel þannig að eftir hefur verið tekið. Og hitt skiptir ekki minna máli að um þetta starf hefur ríkt prýðileg pólitísk sátt um langt skeið.

Hér vísa menn, eins og í Biblíuna sjálfa, í það sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, gerði og taka mjög undir það og hrósa þeirri framvindu sem varð í málaflokknum undir hans forustu. Ég tek undir það, það var mjög gott mál. Það sýnir sérstaklega að sem betur fer hefur ágæt samstaða verið um málið.

Eigi að keyra þetta mál í gegnum Alþingi í krafti meiri hlutans, í bullandi ágreiningi við stjórnarandstöðuna, þá er það mikið óheillaskref. Það er mjög óheppilegt og mikill ábyrgðarhluti að rjúfa sátt í jafn viðkvæmum og mikilvægum málaflokki og þróunarsamvinnumál eru. Þetta eru mál sem mjög margir bera fyrir brjósti og finnst mjög mikilvægt að vel sé utan um haldið. Það er þægilegt til þess að vita að þau mál séu þó þrátt fyrir allan ágreining — öll átökin, allar deilurnar í íslensku samfélagi sem hafa verið mjög miklar í mörg ár og sér í sjálfu sér ekki fyrir endann á — í ágætri sátt; eins og í viðkvæmustu velferðarmálunum, að ekki sé verið að takast á um einkavæðingu velferðarþjónustu, einkavæðingu menntakerfisins. Það er ein af undirstöðum velferðarsamfélagsins, hins manneskjulega og nútímalega velferðarsamfélags, að mjög vel sé gert í þróunarmálum og að til þeirra sé veitt fjármagni og mannafla eins og kostur er hverju sinni.

Árið 2011 sáu þáverandi meirihlutaflokkar fram á að hægt væri að auka hratt framlög til málaflokksins þannig að sómi væri að stöðu Íslands og framlögum til þróunarmála. Því miður var dregið úr því. Vonandi breytist það aftur og eitt af því sem við ættum frekar að vera að ræða hér er hvernig við getum aukið framlög og tekið betur utan um málaflokkinn í staðinn fyrir að tefla honum inn í bullandi ágreining, draga bara þannig, með því að deila um fyrirkomulagið og stjórnsýsluna, kraftinn úr árangursríku og góðu starfi sem fólk almennt ber mikla virðingu fyrir.

Fólk tekur eftir því sem vel er gert og mjög margir Íslendingar eru ákaflega stoltir af því hvernig við höfum staðið að málum í mörgum þróunarlöndunum, hvernig við höfum spilað úr fjármununum, hvernig við höfum varið þeim og hve mikið er hægt að gera fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir í hinu alþjóðlega samhengi.