145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög góð ábending hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi hve haldlaus og rýr öll röksemdafærslan er á bak við málið. Einu rökin eru óljós rök fyrir einhvers konar tvíverknaði og skörun sem mönnum væri, eins og ég benti á hér áðan, í lófa lagið að bæta úr ef svo háttaði án þess að ráðast í það stórverkefni að leggja niður heila stofnun og færa hana inn í ráðuneytið.

Hv. þingmaður spurði hvort það gengi ekki gegn allri þróun síðustu ára í stjórnsýslu og skynsamlegu utanumhaldi um verkefni hins opinbera að auka miðstýringu í ráðuneytunum til að ná betur utan um málaflokkinn. Það er akkúrat kjarni málsins að hér er lagt til að stigið sé risastórt skref í öfuga átt með því að auka einhvers konar miðstýringu í ráðuneytinu utan um málaflokkinn. Eins og hefur komið fram hérna fyrr í umræðunni verður gagnsæi minna og hugsanlega erfiðara að fylgjast með framvindu mála í þróunarsamvinnumálum en er í dag. Þetta er býsna opið og gagnsætt hjá ÞSSÍ. Það hefur reynst mjög vel og auðvelt og gott að fylgjast með því og stofnunin er mjög opin og öflug í að kynna sitt góða starf.

Ég tek alveg eindregið undir það og svara þeirri spurningu ótvírætt játandi að þessi tillaga um aukna miðstýringu og þann fordæmislausa gerning að leggja niður stofnun og færa hana inn í ráðuneytið sé þveröfug þróun.