145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat meginmálið. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var spurð að því hér áðan ítrekað hver hún teldi að tilgangurinn væri með breytingunni og við höfum eiginlega í umræðunni hér í dag og fyrr leitað logandi ljósi að vandamálinu. Það hefur bara enginn fundið nokkurt einasta vandamál í rekstri stofnunarinnar nema óljósar ábendingar um skörun og tvíverknað sem er ekki hægt að rökstyðja frekar og er í sjálfu sér heldur engin rök fyrir þessum breytingum. Vandamálið er því ekki til staðar. Núverandi umgjörð um þróunarsamvinnumál er fyrirtaksgóð og allar vísbendingar sýna að starfsemi stofnunarinnar sé með allra besta móti þannig að það ætti frekar að efla stofnunina og færa til hennar fleiri verkefni en að leggja hana niður án nokkurrar einustu ástæðu og færa inn í ráðuneytið til aukinnar miðstýringar.