145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er þörf. Það sem opinberaðist í ræðu hæstv. ráðherra rétt áðan er það sem ítrekað hefur verið bent á hér í ræðustól á þessu kjörtímabili, fullkomið getuleysi ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra til að ráða við þann málaflokk sem honum hefur verið treyst fyrir í þessum efnum. Rúmlega tvö ár liðu frá því ríkisstjórnin tók við, í einhverri mestu þenslu ferðamannaiðnaðarins í Íslandssögunni, búið að tala um það í mörg, mörg ár að nú þurfi að fara að taka á í þessum efnum, og ekkert búið að gerast enn þá. Engin áætlun. Jú, hæstv. ráðherra tilkynnti um eigin stefnu. Hún birti landsmönnum stefnu sína. Hún bað ekki þingið um að koma og taka þátt í að móta hana. (Gripið fram í.) Hún birti landsmönnum stefnu sína út af því að þannig vinnur hæstv. ráðherra. Þess vegna liggur ekkert eftir.

Ég hef lagt fram hér á þinginu frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem felur sveitarstjórnum að leyfisskylda fénýtingu ferðamannastaða. Það tók mig um það bil dagspart, með smáaðstoð frá nefndasviðinu, að skrifa þetta mál, en það leysir það sem tók hæstv. ráðherra tvö og hálft ár að gera ekki.

Það þarf á mjög mörgum stöðum að innheimta einhvers konar gjald til þess að hægt sé að standa að uppbyggingu. Það er það eina sem er réttlætanlegt að gera. En það að fara að rukka fólk fyrir að fara um landið sitt og fyrir að upplifa náttúruna, fyrir að ferðast á eigin vegum og vera í landi sínu er andstætt öllu því sem einkennir okkar land og er aðalsmerki þess umfram mörg önnur lönd þar sem búið er að hólfaskipta og girða niður á milli fjalls og fjöru.

Það á að vera réttur hvers og eins Íslendings að fara um landið sitt og upplifa það. Það á ekki að vera gjaldskylt. En þegar menn eru á annað borð að fénýta það þá er sjálfsagt að einhvers konar leyfisgjald komi fyrir. Hvers vegna er þetta svona erfitt?