145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[14:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nálgun hæstv. ráðherra er einkaeignarrétturinn og að hann hljóti að vera útgangspunktur okkar og þá hvernig hann er skilgreindur í stjórnarskrá lýðveldisins. Ráðherrann sagði jafnframt að þennan rétt væri unnt að takmarka með samningum eða með lögum. Þessi réttur hefur verið takmarkaður með lögum og ég hef verið að vísa í þau lög. Samráðherra hæstv. ferðamálaráðherra hefur svarað Alþingi því skýrt til í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að gjaldtaka við Kerið, svo dæmi sé tekið, standist ekki lögin. Ráðherrann segir: Það hefur ekki verið látið reyna á þetta fyrir dómstólum þótt Umhverfisstofnun og hæstv. ráðherra hafi komist að þessari niðurstöðu. En hvers vegna er það ekki gert? Hvers vegna er ekki sett lögbann á Kerið? Það er vegna þess að hæstv. ráðherra óttast að sá málstaður sem hún berst fyrir verði undir, en almannahagur verði ofan á. Ég segi bara þetta: Ég óska Óskari Magnússyni, Grími Sæmundsen, Ólafi H. Jónssyni til hamingju með að eiga fótgönguliða á borð við hæstv. ráðherra í sínu liði hér á Alþingi, en við Íslendinga vil ég segja: Látum þau ekki stela náttúrudjásnum Íslands frá okkur. Við eigum að rísa upp gegn þessum þjófnaði eða tilraun til hans. Við eigum þessi náttúrudjásn og rétturinn til að njóta þeirra (Forseti hringir.) er okkar. Látum aldrei taka hann frá okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)