145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta vera að svo stöddu að tala um nefndarstörfin vegna þess að ég var skyndiáheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, venjulega er hv. þm. Birgitta Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi í þeirri nefnd en hún er erlendis þannig að ég hoppaði þarna inn á fund. Sú umræða sem fór þar fram tel ég vera afleiðingu af ákveðnu þingflokksformannaklúðri hér í vor sem sá tók þátt í sem hér stendur og gerði reyndar ráð fyrir á þeim tíma að mundi valda misskilningi enda mikið um misskilning hér á bæ og allir alltaf jafn hissa á því að einhver hafi skilið hlutina öðruvísi en annar.

Hvað varðar hins vegar þau fjárframlög sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. þingsályktunina frá 2011 um að við greiðum 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu, þá finnst mér í stuttu máli eins og ég rakti í ræðu minni að við eigum að standa við það fyrst áður en við ætlum að fara að auka einhverja hagkvæmni með því að leggja niður stofnanir og setja verkefni inn í ráðuneyti. Ef markmiðið er að bæta þróunarsamvinnuna með þeim hætti þá tel ég það engan veginn trúverðugt fyrr en við uppfyllum það loforð sem við höfum gefið sjálfum okkur og öðrum um það hvernig við ætlum að fara með fé í málaflokknum. Á meðan við getum ekki staðið við það þá tel ég ekki trúverðugt að við séum að auka hagkvæmni í málaflokknum með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Burt séð frá öllum öðrum punktum sem ég hef komið inn á hvað varðar vald eins og meðhöndlun hæstv. utanríkisráðherra með vald og allt slíkt, algjörlega burt séð frá öllu því sem við gætum sagt um þann ráðherra eða söguna þá þykir mér það eitt og sér ekki trúverðugt að ætla að auka hagkvæmni í þessu máli áður en við stöndum við loforðið sem við gáfum okkur um 0,7% af vergum þjóðartekjum í málaflokkinn.