145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður rakti réttilega að í greinargerð með frumvarpinu er sagt að eitt höfuðmarkmið þess sé að draga úr óhagræði. Það tókst ekki að benda á neitt í starfi stofnunarinnar sem hægt er að fella undir óhagræði. Sjálfur flutti hv. þingmaður og leiddi fram óljúgfróðasta vitnið, það er fjármálaskrifstofa ráðuneytisins. Það kemur beinlínis fram í tilvitnun sem hv. þingmaður las hér að þetta mundi ekki leiða til neins sparnaðar. Hvað veldur þá? Í þessum sal er enginn maður sem hefur stutt þetta frumvarp til þessa. Einn þingmaður Framsóknarflokksins hefur tekið til máls í þrjár mínútur í andsvari við ráðherrann. (Gripið fram í.) Enginn annar þingmaður úr flokki ráðherrans hefur komið og haldið ræðu með frumvarpinu. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið ræðu og mælt gegn frumvarpinu, virðist styðja það nú með fyrirvara. Með öðrum orðum er hér einn maður sem hefur sannfæringu fyrir málinu og það er hæstv. ráðherra, en það er tímanna tákn að hann er í útlöndum og sá sem hefur málið á sinni forsjá, formaður utanríkismálanefndar, hefur ekki einu sinni verið hér í allan dag. Þetta er áhuginn á málinu.