145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski að biðja forseta að gefa mér aukamínútu til að biðja hv. þm. Frosta Sigurjónsson afsökunar. Mér misheyrðist það sem hann sagði, ég vil bara að það sé á hreinu.

En hvað hv. þm. Ásmund Einar Daðason varðar þá er það alveg rétt hjá honum að ég er pirruð út af umgjörðinni. (Gripið fram í.) En ég fagna því, eins og ég sagði í ræðu minni, ef okkur tekst að losa okkur úr þessum gjaldeyrishöftum. Auðvitað hlýt ég að fagna því eins og Ásmundur Einar Daðason. Ég læt ekki pólitíska flokkadrætti taka það af mér. Ég fagna því. En ég er mjög gagnrýnin á alla umgjörð þessa máls. Þegar seðlabankastjóri svarar munnlegri spurningu fyrir nefnd, þá tel (Forseti hringir.) ég það ekki vera áætlun um það hvernig eigi að aflétta höftum af lífeyrissjóðum, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)