145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekkert á það sem sérstakt hlutverk mitt að eyða efasemdum hv. þingmanns um þetta varðandi skattinn eða að sannfæra hann um það að hér sé ekkert óhreint á ferðinni. Ég get bara sagt hvernig ég upplifi þetta mál. Búin þurfa að geta skráð bréf sín á þessum markaðstorgum og þau geta það ekki nema við gerum þessa breytingu. Inni í þessu eru engar tekjuspurningar. Svona skil ég þetta og hv. þingmanni er alveg frjálst að skilja það einhvern veginn öðruvísi.

Varðandi það hvort aflétta eigi höftum fór ég yfir það í ræðu minni að ég hef alltaf haft þann skilning á þessu máli að eitt stærsta verkefnið við að aflétta höftum sé að koma í veg fyrir að uppgjör gömlu búanna hafi þau áhrif á greiðslujöfnuð að það yrði ekki hægt. Nú liggja fyrir drög að nauðasamningum sem núlla algjörlega út þessi áhrif uppgjöranna á greiðslujöfnuð þannig að það er þá frá.

Verður hægt að aflétta höftum? Það er eftir sem áður stór spurning. Það á eftir að fara fram útboð á aflandskrónum. Mér finnst slæmt að það hafi ekki farið fram. Það er stórt og þar eru stórar upphæðir. Það þarf að leiða það til lykta. En svo held ég, og ég er sammála seðlabankastjóra í hans mati á því, að hafi einhvern tíma, eftir að útboðið hefur farið fram, verið aðstæður til að aflétta höftum þá sé það þá. Það er að hefjast innstreymi á fjármagni sem er vandi sem er ekki síður uggvænlegur fyrir okkur, það styrkir krónuna óhóflega, þannig að við þurfum að fara að aflétta höftum. En það verður auðvitað gert með ákveðnum hraðahindrunum og þar fram eftir götunum.

Eftir sem áður er ein stærsta spurningin gagnvart svona haftalausum heimi: (Forseti hringir.) Þolir krónan það? Og ég er nú, eins og hv. þingmaður veit, eindreginn talsmaður þess að við skiptum um gjaldmiðil.