145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:43]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Breytingin sem nefndin gerði á ákvæði frumvarpsins sneri ekki að neinu Tortóluliði heldur að sjálfum þeim lögaðilum sem mundu taka að sér að fullnusta þessa nauðasamninga, að þeir gætu ekki gefið út frekari skuldabréf með þessari undanþágu. Þetta gilti bara um þau skuldabréf sem væru gefin út til að afhenda kröfuhöfum til að efna nauðasamninginn. Það var hugsanlegt að túlka mætti það þannig, þó að það væri langsótt, að þessi lögaðili hefði getað haldið áfram og gefið út fleiri útgáfur til að nýta undanþáguna í öðrum tilgangi, hafið starfsemi sem slíkur. Það er ákaflega langsótt en engu að síður ákvað nefndin að girða fyrir þann möguleika.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar er mér ekki kunnugt um hvort eitthvert Tortólulið er meðal eigenda að kröfum í slitabúin. Við spurðum ráðuneytið hvort ríkissjóður færi á mis við einhverjar tekjur með þessari undanþágu. Svörin voru á þá leið að ekki væri gert ráð fyrir því, það væri kannski ekki hægt að útiloka það gjörsamlega. Ef maður skoðar þetta fræðilega þá virðist vera hægt að sniðganga löglega þessa skatta, þennan afdráttarskatt, með því að fara t.d. í gegnum Belgíu þar sem slíkir skattar eru ekki lagðir á útgáfu slíkra skuldabréfa og það eru svo margar leiðir til að ganga fram hjá þessum skatti að hann er í rauninni haldlaus. Mörg ríki hafa fallið frá því að nota hann vegna þess að hann virkar ekki. Ef hann væri hins vegar til staðar mundi það valda mjög miklum kostnaði fyrir hið opinbera bæði að veita upplýsingar og krefjast upplýsinga frá þeim stóru fyrirtækjum sem sjá um skráningu þessara bréfa og utanumhald þessara mála.

Þegar upp er staðið þá var ekki tilefni til þess að leggja stein í götu þessara slitabúa við að gefa út skuldabréfin vegna þess að það væri einhver möguleiki á því að 0,1% þessara kröfuhafa (Forseti hringir.) væri á Tortólaeyju, heldur er reynt að liðka fyrir því að þeir geti fengið þessi bréf og þau geti gengið kaupum og sölum. Þannig geta þeir hugsanlega líka sýnt (Forseti hringir.) okkur meiri sveigjanleika í samningum við okkur, eða það sem kallað er lifandi samtal.