145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem tengist einu stærsta efnahagsmálinu sem rætt hefur verið í þinginu eftir hrun og ég vil eins og aðrir þingmenn sem hafa kvatt sér hljóðs gagnrýna mjög þann hraða sem verið hefur á þessu máli og þann skort á upplýsingum sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í dag.

Ég vil byrja á að segja og beina orðum mínum til fjölmiðla sem og þeirra sem hafa áhuga á efnahagsmálum og þeirra sem hafa áhuga á stjórnmálum að kynna sér vel nefndarálit 2. minni hluta sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir skrifaði. Það er eins og hennar er von og vísa skrifað á mannamáli og þar koma skilmerkilega fram áhyggjur okkar af þessu máli. Eins vil ég benda á nefndarálit 1. minni hluta, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem viðrar ýmis önnur sjónarhorn á þessu máli. Þau eru bæði þægilega stutt og auðlesin en það verður ekki sagt um önnur gögn málsins sem við höfum fengið. Það vantar ekki magnið í skýrslu Seðlabankans eða glærukynningu ríkisstjórnarinnar, en það eru afskaplega vandmeðfarnar upplýsingar og illskiljanlegar og það þarf mikla festu og ákveðni til þess að fara í gegnum þau gögn. Þau eru þó á engan hátt nægilega skýrandi fyrir þetta stóra mál, þar vantar mikið inn.

Förum aðeins yfir hraðann í málinu. Mælt var fyrir málinu fyrir mánuði síðan. Það var áður en ríkisstjórnin hafði kynnt stöðugleikaskilyrðin á enn einu glærusjóinu. Síðan kemur málið til 2. umr. með breytingartillögum, breytingartillögum sem eru mun umfangsmeiri en upphaflegt frumvarp. Frumvarpið er fjórar greinar sem eru um ein blaðsíða að lengd, en breytingartillögurnar eru hvorki meira né minna en sex í mörgum liðum. Þannig að málið kom vanbúið inn í þingið og upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að geta tekið afstöðu til þess er ábótavant.

Þegar við vorum að ræða þessar leiðir í vor, stöðugleikaskattinn og afsláttarleiðina, voru þær kynntar sem jafn gildar. Það má öllum ljóst vera sem lesa nefndarálit minni hlutans að þetta eru ekki jafn gildar leiðir. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kemur inn á það að auðvitað geti samningaleiðin verið góð, hún er að mati okkar jafnaðarmanna oftast æskilegust því að hún dregur úr áhættu og óvissu, en við þurfum að vita hvað í henni felst. Þessar leiðir áttu sem sagt að vera jafn gildar en eru það ekki og auk þess erum við nú að ræða frumvarp sem felur í sér frekari ívilnanir á afsláttarleiðinni. Það getur verið eðlilegt að veita einhvern afslátt til þess að minnka óvissu og draga úr áhættu en 450 milljarðar er ansi ríflegt, það er munurinn á afsláttarleið ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart erlendu kröfuhöfunum og stöðugleikaskattinum sem almennur og ríkur stuðningur var við í þinginu.

Svo velti ég því fyrir mér: Af hverju kynnti ríkisstjórnin ekki á sínum tíma afsláttinn í öllu sínu veldi? Af hverju var valið að fara fyrst fram með málið eins og það var þá og koma svo rétt áður en tímafrestur til nauðasamninga er útrunninn og kynna enn frekari afslátt? Getur verið að þá hefði málið ekki litið jafn vel út og fengið þann gleði- og bjartsýnisbjarma með sér ef afslátturinn hefði verið skrifaður út að fullu? Getur verið að það hefði gefið lengri tíma til gagnrýninnar umræðu, hefði kallað á frekari spurningar? Það veit ég auðvitað ekki. En eins og ég hef sagt áður í dag þá er ég full tortryggni því ég tel að við í minni hlutanum séum sett í óviðunandi aðstöðu að eiga að fara að greiða atkvæði um mál af þessu tagi með jafn vanbúnum upplýsingum og raun ber vitni. Það getur vel verið að framsóknarmennirnir 19 og sjálfstæðismennirnir 19 sem mynda hér meiri hluta hafi aðgengi að þessum upplýsingum, það veit ég ekki. Þau hafa fá tjáð sig í dag, nokkur þeirra komu hér með skæting í andsvörum. En ég veit ekki hvað almennum þingmönnum í salnum finnst um þetta mál og hvort þau séu sátt við að hin mikla útreið á hrægömmum sem átti að fara fram á þessu kjörtímabili hafi sýnt sig vera þægileg og elskuleg afsláttarleið sem leysir þá undan fjötrum gjaldeyrishaftanna, en skilur okkur hin sem byggjum þetta þjóðarbú og höldum því gangandi eftir í súpunni.

Þegar vel er rýnt í gögnin má sjá að afsláttarleiðin felur í sér um 379 milljarða í ríkissjóð á einhverjum tíma. Það er algjörlega óvíst hvort þeir fjármunir skili sér, nema peningarnir sem mynda 8 milljarða sem hljóta nú að skila sér. Síðan er matið á Íslandsbanka 185 milljarðar. Margir hafa gagnrýnt í dag að það sé svo kotroskið og við fáum ekki almennilega forsendurnar nema ríkisstjórnin meti það sem svo að hún geti selt Íslandsbanka á bókfærðu verði. Það hefur verið dregið í efa og ekki að ástæðulausu. Svo eru ýmsar eignir og kröfur upp á 83 milljarðar. Við höfum engar forsendur til þess að meta hvort það sé rétt mat. Svo er það hlutdeild í sölu á Arion banka upp á 20 milljarða. Það má segja hið sama um þá fjármuni eins og matið á Íslandsbanka. Síðan er það skuldabréf með veði í Arion banka upp á 84 milljarða.

Það kemur líka fram í nefndaráliti 2. minni hluta að inn í afsláttarleiðina reiknar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar nú þegar sér til tekna skilmálabreytingar sem gerðar hafa verið á Landsbankaskuldabréfinu, sem lýsir þó nokkrum vilja til þess að fegra myndina, og taldir eru til tekna í stöðugleikaframlaginu 60 milljarðar sem hafa þegar verið greiddir í ríkissjóð í formi bankaskatts. Það er því mjög erfitt að átta sig á hvað kröfuhafarnir eru í raun og veru að fá í sinn hlut og hvaða afslátt við erum að veita þeim. Hann er væntanlega mun meiri en gefið er í skyn í þessu frumvarpi.

Síðan kemur að jafnræðinu sem lofað var, því að það er nú aldeilis mál fyrir heilt samfélag að búa við gjaldeyrishöft. Viðskiptaráð, sem er nú ekki mitt uppáhaldsráð, stendur nokkuð nærri sérstaklega flokki fjármálaráðherra, það er svona hugmyndafræðilegur samhljómur þar á milli, telur að gjaldeyrishöftin kosti okkur um 80 milljarða á ári. Við í Samfylkingunni fögnum því auðvitað að við getum stigið heilladrjúg skref í átt til losunar gjaldeyrishafta, en við bendum á að við höfum ekkert staðfest í höndunum um að afsláttarleiðin sé í raun og veru betri leið til þess. Það sem lesa má í raun á milli línanna er — og við vitum heldur ekkert, við höfum ekki almennilegar upplýsingar um það — að verið er að losa erlenda kröfuhafa undan gjaldeyrishöftum meðan lífeyrissjóðir, íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur verða áfram innan fjármagnshafta. Það er ekki það jafnræði sem boðað var í vor. Ég held að það sé mjög mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd fari í greiningu á áhrifum af þessu.

Lífeyrissjóðirnir sem hafa mikla þörf til þess að koma fé úr landi, fjárfesta erlendis til þess að dreifa áhættunni og komast út úr hinu íslenska lokaða hagkerfi, munu að öllum líkindum ekki koma nema 10 milljörðum á ári næstu árin úr landi. Hver einasti einstaklingur á Íslandi sem stundar atvinnustarfsemi af einhverju tagi, hvort sem það er launamaður eða sjálfstætt starfandi atvinnurekandi sem greiðir sér laun, hefur lögbundna skyldu til þess að setja hluta af launum sínum í lífeyrissjóði, inn í samtryggingarsjóði sem mynda mikilvæga stoð í íslensku efnahagskerfi og dreifa lífeyrisbyrði á milli kynslóða. Þessir lífeyrissjóðir eru þegar orðnir nær ósjálfbærir í núverandi kerfi og eru að kaupa upp allt sem kaupandi er. Með þessu áframhaldi munu myndast eignabólur á hlutabréfamarkaði og húsnæðismarkaði sem munu koma íslenskum almenningi í koll og ekki þeim erlendu kröfuhöfum sem nú er verið að hleypa út með ríkulegum afslætti. Við getum ekki leyft okkur að afgreiða mál sem þetta án þess að hafa kannað þetta út í hörgul.

Svo vil ég í lokin vitna beint, með leyfi forseta, í niðurlag nefndarálits 2. minni hluta. Þar segir:

„Almenn gagnrýni á málatilbúnaðinn fremur en athugasemdir við einstakar lagagreinar er ástæða þess að þessu séráliti er skilað. 2. minni hluti vill þó sérstaklega benda á eftirfarandi: Á fundum nefndarinnar komu ekki fram haldbærar skýringar á nauðsyn þess að fella burt afdráttarskattinn og í ljósi tvísköttunarsamninga sem í gildi eru virðist sú aðgerð koma best út fyrir aðila sem eiga kröfur í eylöndum sem gera út á skattsniðgöngu, svo sem Tortólu, Cayman-eyjum og öðrum slíkum.“

Það er dálítið alvarlegt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætli með þessu frumvarpi að tryggja enn frekari afslátt til erlendra kröfuhafa og veita sérstakt skjól þeim sem bregðast samfélagslegum skyldum sínum og flytja fjármuni sína í skattaskjól. Þetta er algjörlega óviðunandi, herra forseti, og með ólíkindum að stjórnarflokkarnir ætli að bjóða okkur í minni hlutanum og sínum þingmönnum sem ég held að hafi ekki sérstaklega djúpan skilning á þessu máli upp á málatilbúnað sem þennan.