145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er æðitæknilegt frumvarp og tyrfið sem við greiðum nú atkvæði um en lýtur að því að gera búum gömlu bankanna, föllnu bankanna, betur kleift að ljúka nauðasamningum fyrir tilsettan tíma. Við styðjum þetta frumvarp. Mér finnst skiljanlegt að það hafi komið fram. Vandinn er gríðarlega stór og umfangsmikill. Það er verið að gera upp heilt fallið fjármálakerfi og skiljanlegt að það þurfi að sníða af ýmsa agnúa í lögum til að gera það mögulegt.

Við vonum í Bjartri framtíð að í kjölfar þessarar lagasetningar verði hægt að ná samkomulagi um slit gömlu búanna á grundvelli þeirra nauðasamninga sem hafa verið kynntir og staðfestir af Seðlabanka Íslands. Við teljum þá nauðasamninga endurspegla góða lausn á þessum stóra vanda og vera mjög í anda þess sem við höfum talað fyrir og lítum á að sé niðurstaða úr margra ára vinnu mjög margra stjórnmálamanna, (Forseti hringir.) embættismanna og annarra allt frá hruni.