145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram er mikill hraði á þessu máli. Við ræddum það mál í gær í 2. umr. og breytingartillögur sem voru mjög umfangsmiklar. Í dag kom í ljós að þær dugðu ekki til og nú blasir við okkur stór breytingartillaga í þremur liðum, sem við eigum væntanlega að kynna okkur á meðan umræðu vindur fram og setja okkur inn í.

Ég er ein þeirra sem eru mjög ósáttir við skort á upplýsingum og hraða á þessu máli.

Ég vil spyrja hv. þingmann. Það hefur komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að þetta mál og upplýsingarnar sem tengjast stöðugleikaskilyrðunum og upplýsingar um áætlun um afnám hafta og allt það séu tvö ólík mál og þeim beri ekki að blanda saman. Þess vegna vil ég spyrja: Af hverju er hraðinn svona mikill á þessu máli? Skiptir þetta mál máli svo hægt sé að fara stöðugleikaframlagsleiðina? Ef ekki, af hverju erum við þá að flýta okkur svona mikið? Hvernig er það í huga þingmannsins, er þetta mikilvægt mál til að hægt sé að fara þá leið sem við höfum engar upplýsingar um? Síðan vil ég spyrja: Af hverju þessi hraði? Það er 4. nóvember.