145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi taka stuttlega til máls við 3. umr. þessa máls til að fara yfir í umræðunni þær athugasemdir sem okkur bárust síðdegis í dag frá Indefence. Mér þykir ófært að þær séu ekki ræddar hér í þingsölum áður en þetta breytingafrumvarp er afgreitt héðan af Alþingi. Það er mjög sérstakt að sjá öll þau lausatök sem eru á vinnslu þessa máls af hálfu ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra og hvernig hlaupið er inn með lagabreytingar á breytingartillögur ofan í meðförum málsins í nefndinni. Það hlýtur að vekja áhyggjur um málatilbúnaðinn að öðru leyti. Þetta er sérstaklega bagalegt vegna þeirrar leyndar sem hefur verið hjúpuð um þetta mál og vegna þeirrar staðreyndar að ekkert hefur verið upplýst um efnislegar forsendur þeirra ákvarðana sem verið er að taka og skipta samfélagið miklu máli. Það eykur ekki trúverðugleikann í málinu og traust okkar á að vel sé verið að fara með það eina skot sem er í byssunni þegar við sjáum athugasemdir Indefence sem voru sendar í dag.

Það er mjög athyglisvert að þær falla algjörlega saman við þær efasemdir sem við í stjórnarandstöðunni höfum viðrað í umfjöllun um þetta mál á undanförnum dögum og vikum og þar er átalin hin villandi framsetning stjórnvalda um umfang stöðugleikaframlaga og eftirstandandi vanda.

Í greiningu Indefence kemur fram með mjög skýrum hætti og er sett fram mjög skýrt að ef horft er til reiknaðra vaxta samkvæmt spá Seðlabankans þá muni erlendir kröfuhafar fá með þeirri afgreiðslu sem ríkisstjórnin er nú að leggja til að taka með sér út úr landinu sem svarar yfir 500 milljörðum kr., yfir 500 milljarðar af krónum sem verður breytt í erlendan gjaldeyri og sá gjaldeyrir þarf einhvers staðar að koma frá. Vissulega fara þeir ekki út á morgun og ekki hinn daginn, en það er búin til ný snjóhengja fram í tímann sem ekki er útfært hvernig verði hægt að bræða á annan veg en þann að hún steypist yfir almenning í landinu, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Það er stóra hættan í málinu. Þessir 500 milljarðar, sem ríkisstjórnin ætlar að gefa erlendum kröfuhöfum færi á að breyta í gjaldeyri, bætast við erlendu eignir þrotabúanna upp á 1.150 milljarða sem þeir fara með fríir og frjálsir. Það er mjög mikilvægt að setja þessar staðreyndir í samhengi og þessar tölur í samhengi.

Þegar Seðlabankinn gerir fyrir næstu þrjú árin afar bjartsýna spá um þjóðhagslega afkomu og gerir ráð fyrir að hér verði hagvöxtur til muna meiri en í nokkru öðru landi á Vesturlöndum þá er samt gert ráð fyrir að öll þau þrjú gæftaár sem fram undan eru muni okkur einungis takast að skapa 110 milljarða í erlendan gjaldeyri sem verði til ráðstöfunar og hann þurfi allan til að nota til að greiða skuldir.

Þess vegna er fyrirheitið svo varhugavert sem kröfuhöfunum er gefið um að fá að fara út í fyllingu tímans, eftir sjö ár, með 500 milljarða, sem enginn getur útskýrt hvernig á að finna gjaldeyri til að flytja út úr landinu. Það hefur engin tilraun verið gerð til að greina útflæðisþrýsting til þetta langs tíma. Eina greiðslujöfnunargreiningin sem við höfum séð, hin sama og gerir ráð fyrir að einungis verði til 110 milljarðar á þremur árum, gerir ráð fyrir því að lífeyrissjóðir almennings í landinu komist út með hvorki meira né minna, virðulegi forseti, en 10 milljarða á ári þegar fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er a.m.k. tíföld sú fjárhæð. Það er sú umgjörð sem er virkilega mikið áhyggjuefni.

Þegar við síðan stöndum frammi fyrir því að hér er komið undir kvöld með viðbótarbreytingar sem enginn hefur séð og stjórnarmeirihlutinn hyggst afgreiða þær í kvöldmyrkrinu þá setur að manni hroll um umgjörð málsins að öðru leyti og maður hefur eðlilega áhyggjur af því hversu tryggilega er um það búið þegar þessi lausatök verða öll ljós.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að óþörfu en mér fannst óhjákvæmilegt að flytja viðvörunarorðin enn og aftur við 3. umr. málsins, því að það verður ekki aftur skotið þessu skoti. Eftir að fjármálaráðherra samþykkir undanþáguna til slitabúanna fá þau fyrirheit um að fara út með 500 milljarða af innlendum eignum sem við munum þurfa að redda þeim gjaldeyri til að komast burtu með. Það verður þá ekki gjaldeyrir sem verður til ráðstöfunar fyrir íslenska lífeyrissjóði til þess að styrkja fjárfestingargrunn þeirra og standa undir lífeyrisgreiðslum okkar allra í framtíðinni. Það verður ekki gjaldeyrir sem verður til reiðu fyrir fyrirtækin í landinu eða fyrir aðrar þarfir okkar sem þjóðar. Það er rausnarlegt framlag af hálfu ríkisstjórnar sem einu sinni sagðist ætla að mæta erlendum kröfuhöfum og hrægömmum með kylfum og krefjast þess að virtir yrðu ýtrustu hagsmunir Íslands að lofa þeim sömu hrægömmum núna skilyrðislaust að komast út eftir nokkur ár með íslenskar krónur í erlendum gjaldeyri svo nemur fimmfaldri gjaldeyrissköpunargetu þjóðarinnar næstu þrjú árin. Þetta heitir og getur hæglega talist þegar fram í sækir að hafa verið mikið feigðarflan og að menn hafi hér reist sér hurðarás um öxl. Við skulum vona að svo verði ekki.

Ríkisstjórnin hefur því miður ekkert gert til þess að fullvissa okkur um að vel sé um málið búið og því miður ekkert gert til að gera okkur mögulegt að standa með henni í málinu. Það eina sem hún hefur lagt fram í þessu máli eru hefðbundin hnýfilyrði og flokkspólitískt skæklatog og hún hefur ekki á nokkurn hátt gert okkur mögulegt að þreifa á naglaförunum, sannfærast um það hvernig málið er raunverulega útbúið og að geta hér staðið með ríkisstjórninni og sagt: Já, við teljum að búið sé að róa fyrir hverja vík og verja til fulls íslenska hagsmuni. Það er sorglegt að menn hafi ekki náð að nýta þetta tækifæri til þess að viðhalda þeirri samstöðu sem við buðum upp á hér í sumar og ábyrgðin á þessum gjörningi og rausnarlegu samningum við hina erlendu kröfuhafa verður því að vera að fullu og öllu á herðum ríkisstjórnarinnar sem nú situr, ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.