145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er tilfinning sem virðist vera meðal okkar, a.m.k. í Samfylkingu, VG og Pírötum, að búið sé að bregðast trausti okkar. Í vor var rík samstaða um að afgreiða mál fljótt og vel í þeirri trú og undir því fororði að við mundum sameiginlega fara í þennan leiðangur og finna bestu niðurstöðuna fyrir hagsmuni þjóðarbúsins. En síðan fóru þeir félagar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hlæjandi í bankann, eins og við getum sagt, og þeim hefur eflaust þótt við ansi miklir aumingjar að hafa treyst þeim með þessum hætti. Svo erum við, sem erum með ríka ábyrgðartilfinningu og teljum skipta máli að huga að hagsmunum landsmanna, sett í þá erfiðu stöðu að þurfa að taka afstöðu til þessa máls og geta ekki stutt það.

En það er líka erfitt að stöðva það. Það truflar mig að ég tel þetta mál greiða fyrir því að hægt sé að fara þá leið sem ekki hefur verið upplýst sæmilega um og þarf að lúslesa og rýna gögn til þess að skilja hvað er eiginlega á ferðinni og við höfum ekki fengið óháðar greiningar. Telur hv. þingmaður ekki að með atkvæðagreiðslunni á eftir sé þingið í raun og veru að missa málið út úr höndunum og að á fundinum á morgun með Indefence (Forseti hringir.) geti hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra (Forseti hringir.) hlegið saman að okkur og að því að við séum (Forseti hringir.) daginn eftir að lögin voru samþykkt að fjalla um vafaatriði sem þau munu hafa áhrif á.