145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að gera athugasemd við fundarstjórn forseta og dagskrá þessa þings vegna þess að við erum að fara í 1. umr. um fjáraukalög og klukkan er korter yfir níu á miðvikudagskvöldi. Við erum búin að vera hér með fund eftir fund í þinginu þar sem nánast ekkert hefur verið á dagskrá, menn hafa verið að strauja einhverjum EES-málum í gegn á 20 mínútum. Þessi ríkisstjórn leggur ekki fram nein mál og svo loksins þegar kemur eitthvert mál er okkur þingmönnum boðið upp á að ræða það frá korter yfir níu til tólf í kvöld eða inn í nóttina.

Þetta er ekki boðlegt og ég bið um að það verði endurskoðað hvernig menn reka þetta þing. Við þingmenn eigum rétt á því að tala um jafn stór mál í dagsbirtu við fólkið sem hefur kosið okkur hingað inn, ekki síst í ljósi þess að engin önnur aðkallandi mál liggja fyrir.

Við hljótum að óska eftir því að menn endurskoði hvernig er raðað á dagskrána og að þingmönnum sé ekki boðið upp á þetta, og hvað þá ráðherrunum, með svona stór stórmál.