145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki betur á hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, talandi um samkomulag hér áðan, en að það hefði ekki verið gert neitt samkomulag um að ljúka málinu, fjáraukalögunum í kvöld. Hún sagði það, þannig að ég skil ekki hvað menn eru að tala um hér.

Hér var sagt að einhver hefði talað um aumingjaskap að vera ekki í kvöldvinnu. Það má vel vera. En mesti aumingjaskapurinn væri líklega sá í huga þeirra sem þannig töluðu að ráðherrarnir skuli ekki leggja nein mál fram og svo loksins þegar kemur fram mál á að keyra það áfram á kvöldfundi. Það kom ágætlega fram í samantekt í fjölmiðli í dag að þrír ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru af þinginu skilað núll málum inn í þingið, núll málum. Ég held að stjórnarflokkarnir ættu kannski aðeins að velta því fyrir sér hvernig þeir ætla að reka málflutning sinn í þinginu í vetur í staðinn fyrir að vera að reyna (Forseti hringir.) að keyra einhver mál, smáatriði sem kallað er, í gegnum umræðu á kvöldfundi, algerlega að óþörfu. Við erum búin að halda 40 mínútna þingfundi, 20 mínútna þingfundi, hvers vegna? Þetta er bara asnalegt fyrirkomulag og vinnulag.