145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að leggja mat á hvort hlutir í bönkum á Íslandi seljist undir eða yfir nafnvirði. Ég treysti mér ekki til að fara út í þá umræðu og held að það sé fyrir utan mitt svið að fara að ræða það eða vera með vangaveltur um það. Mér er kunnugt um það gangvirði sem er erlendis. Hins vegar eru það bara framboð og eftirspurn sem ráða þegar upp er staðið; hvað vilja kaupendur kaupa á og hvað vilja seljendur selja á? Oft er það nú það sem ræður. Það er ekki mjög virkur markaður með banka á Íslandi og kannski ekki heldur í útlöndum.

En af því að hv. þingmaður nefndi umræður um hvernig við viljum haga bankakerfinu í framtíðinni vil ég leggja orð í belg um það. Ég held að það sé tækifæri fyrir okkur núna sem þjóðar að endurskipuleggja bankakerfið þannig að það nýtist samfélagi okkar betur til frambúðar. Það eru allir sammála um að bankakerfið er allt of stórt fyrir samfélag okkar. Við erum komin með risastóra banka sem eru of stórir til að falla og eru með hálfgert fjárkúgunarvald gagnvart ríkissjóði og skattgreiðendum. Það er ekki hægt að una við slíkt ástand til frambúðar. Við verðum að nota tækifærið til að skipta hugsanlega bönkunum upp í grunneiningar sem eru þá smærri, í viðskiptabankaeiningu, fjárfestingarbankaeiningar, íbúðalánasjóðseiningar. Síðan held ég að það væri til bóta að bönkum væri ekki falið að starfrækja peningakerfið í landinu. Við ættum ekki að vera með einkavædda krónu eins og við höfum verið með heldur eigum við að færa það til Seðlabankans að annast bæði seðlaútgáfu og útgáfu á þeim innstæðum sem við höfum til þess að nota í öllum viðskiptum. Með því gætum við búið til minni einingar, einingar sem væru í meiri samkeppni sín á milli, og hver um sig væri ekki hættuleg samfélaginu ef hún færi illa að ráði sínu í rekstri.

Það ætti sem sé að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka, fjárfestingarbanka og íbúðalánasjóði og taka peningavaldið af bönkunum. Með því væri mjög stórt skref stigið í átt að því að gera hérna öruggara og eðlilegra umhverfi í bankamálum sem þjónaði samfélaginu en skapaði ekki hættu.