145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Ég hef eina spurningu sem er tæknilegs eðlis af því að í ræðu minni hér fyrr í dag benti ég á skekkju upp á 15 milljarða sem blasir við að gæti verið, þ.e. vanmat á arði Landsbankans upp á 15 milljarða í fjárlögum fyrir 2015 sem við erum að leiðrétta núna í fjáraukalögum 2015. Nú er fyrirsjáanlegt að í fjárlögum fyrir 2016 er skekkjan enn meiri, hugsanlega 20 og jafnvel 30 milljarðar. Það er fyrirsjáanlegt áður en við tökum fjárlögin til umræðu. Hvað vill hv. varaformaður fjárlaganefndar gera? Hvað er yfirleitt gert í svona málum hér á þinginu? Ég vil bara fræðast um það.