145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri af nógu að taka ef maður ætlaði að fara í það að gera athugasemdir við allt það sem kom fram hjá hv. þingmanni. Ég ætla aðeins að staldra við nokkra hluti. Í fyrsta lagi við Asíusjóðinn sem ég heyrði að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á. Það er þannig að þetta snýr ekki aðeins að Asíu heldur eru forusturíkin í sjóðnum Kínverjar og Rússar. (ÖS: Okkar menn.) — Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar okkar menn, það eru ykkar menn. (ÖS: Þið ætlið að fá … en ekki ég.) Mér finnst áhugavert að hv. þingmaður skyldi ekki nefna það í ræðu sinni, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem vakti athygli mína var að hv. þingmaður skautaði svolítið létt yfir aðkomu þessarar ríkisstjórnar en talaði um að búið hefði verið að fjármagna innviðauppbyggingu og ýmsar fjárfestingar, m.a. með sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum. Hv. þingmaður talaði síðan gegn því að seldir yrðu hlutir í fjármálafyrirtækjum. Er það ekki rétt hjá mér að þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn hafi verið sett inn í fjárlögin að selja hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum? Bara svo að við séum á sama stað hvað það varðar.

Síðan talaði hv. þingmaður mjög mikið um sparisjóðina og hvað þeir gerðu. Hv. þingmaður veit að fyrir bankahrunið var afkoma sparisjóðanna, þ.e. hefðbundin viðskiptastarfsemi, ekki góð, þeir náðu ekki endum saman hvað það varðaði. Af því að hv. þingmaður talaði mjög eins og það módel hefði gengið mjög vel upp þá mætti hann fara aðeins nánar í það, vegna þess að það sem hélt uppi afkomu sparisjóðanna var nokkuð sem síðan fór illa og það var fjárfestingarstarfsemin. (Forseti hringir.) Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hv. þingmaður ætlar síðan að sjá þá hluti ganga upp núna. Það væri ágætt ef hann upplýsti okkur um það.