145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hvatninguna og fullyrði það hér og nú að við munum hafa slíkt samráð við ráðuneytið. Öll þau sjónarmið sem þingmaðurinn nefndi verða að koma til skoðunar. Þetta eru stór álitamál og eins og ég nefndi erum við nú með stærsta atvinnuveg þjóðarinnar. Það er nýr veruleiki fyrir okkur Íslendinga. Við erum síðan að tala um mörk eignarréttar og almannaréttar. Við vorum reyndar sammála um að sú tilfinning Íslendinga að geta farið um land sitt er eitthvað sem allir vilja halda í, en um leið og farið er að gera þann rétt að féþúfu í atvinnuskyni koma fram ýmis sjónarmið sem þarf að skoða mun betur. Það sem við gerðum, og ég tel vera mjög gott, er að við fólum Umhverfisstofnun sérstaklega og landeigendum heimildir til að grípa inn í ef við sjáum fram á að einhvers staðar séu að verða náttúruslys út af ágangi ferðamanna. Þó að við höfum sagt að við ætlum aðeins að bíða stigum við að mínu mati mjög mikilvæg skref vegna þess að enginn vill sjá náttúruna verða undir í einhvers konar átroðningi. Ég held að við séum mjög sammála um það.