145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að gera örstutt grein fyrir þeirri breytingartillögu sem minni hlutinn flytur í þessu máli til að það sé alveg á hreinu hvað er hér á ferðinni. Við sem vorum þátttakendur í aðdraganda lagasetningar laga nr. 60 frá 2013 minnumst þess að það var mikill kurr í samfélaginu vegna fyrirhugaðrar lagasetningar, en hann var að mörgu leyti byggður á misskilningi og rangtúlkunum á því sem raunverulega var á ferðinni í lagafrumvarpinu. Til þess að reyna að mæta þeim ranga skilningi sem var uppi var sest niður í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili og reynt að finna einhvern milliveg. Sá millivegur hefur síðan fylgt þessu máli áfram og er hluti af frumvarpinu sem til stendur að samþykkja síðar í dag.

Hins vegar má segja um sumar aðrar greinar í frumvarpinu að okkur hefur tekist ágætlega að skýra og laga til þau ákvæði sem voru kannski á lokametrunum 2013 afgreidd í nokkrum flýti. Utanvegaakstursákvæðið er eitt af þeim sem þyrfti meiri yfirlegu og meiri lagfæringar við en okkur hefur tekist að gera í nefndinni. Engu að síður leggjum við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar til breytingu á ákvæðinu um utanvegaakstur sem að okkar mati er mun skýrara en það sem finna má í frumvarpinu. Þá vil ég sérstaklega taka til að í 2. mgr. ákvæðisins er talað um að þrátt fyrir ákvæði um að utanvegaakstur sé bannaður þá sé vegna starfa við landbúnað heimilt ef nauðsyn krefur að aka utan vegar á landi sem sérstaklega er nýtt til landbúnaðar ef ekki hljótast af því náttúruspjöll. Í fyrri lagatextanum var gert ráð fyrir því að þetta ætti við um landsvæði utan miðhálendisins en í frumvarpinu eins og það lítur út í dag hafa þessi orð fallið út og hafa fjölmargir umsagnaraðilar bent á það að þarna hljóti að vera um mistök að ræða og eðlilegt væri að bæta þeim orðum inn. Í tillögu okkar gerum við einmitt ráð fyrir því að þessum tveimur orðum, „utan miðhálendisins“, sé bætt inn í málsgreinina.

Meiri hlutanum til málsvarnar svo maður setji sig nú í stellingar fyrir hann þá er næsta setning þannig orðuð, með leyfi forseta:

„Við eftirleitir er bændum heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum, svo sem fjórhjólum, enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti og ekki talin hætta á náttúruspjöllum.“

Með því að gagnálykta út frá þessari setningum má færa fyrir því rök að í fyrri setningunni sé bann við það að aka innan miðhálendisins, þannig að þeirri röksemd sé haldið til haga. Það er auðvitað sameiginlegur skilningur nefndarinnar að þannig sé það en við töldum öruggara að kveða fastar að orði í textanum og flytjum þess vegna breytingartillögu.

Á það má svo auðvitað benda eins og gert var í umræðunni í gær að í þessari síðari setningu sem ég las upp er setningin „enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti“ og í henni felst að sjálfsögðu nokkuð mikil vörn, því að í 1100 ár hefur gripum einmitt verið náð með öðru móti en léttum ökutækjum á miðhálendinu. Þannig að þetta er nauðsynlegt.

Þar að auki er einn af fylgihlutum vinnunnar við síðustu umferð þessa lagabálks í þinginu mikil upptalning á aðilum sem njóta undantekninga vegna utanvegaaksturs og eru þá t.d. talin upp störf við vegalagnir, línulagnir, alls konar veitur, sandfok og landgræðslu og þar fram eftir götunum. Við gerum í okkar tillögu ráð fyrir því að Umhverfisstofnun veiti þessum aðilum sérstakt leyfi, tímabundið eða ótímabundið, enda sé ekki hægt að vinna þessi viðkomandi störf á annan hátt. Við teldum eðlilegt að veitt væri sérstakt leyfi í þeim tilfellum frekar en þessir aðilar væru taldir sérstaklega upp í lögunum. Þetta er að ég held grein sem allir eru efnislega sammála um í hvorri útgáfunni sem hún er en ég held að sú breytingartillaga sem við flytjum hér sé mun skýrari. Hún hefur það með sér umfram hina að hún er ekki tilbúningur úr einhverju löngu samningaferli þar sem fjölmargir aðilar hafa komið að með ólík sjónarmið heldur er hún skrifuð í einu lagi og er þess vegna eðlilegri.

Ég vildi í þessu stutta erindi gera grein fyrir því hvers vegna við flytjum þessa breytingartillögu. Ég tel að ef við hefðum kannski farið aðeins brattar í þessa vinnu fyrr í haust þá hefðum við náð utan um þetta. Það tókst því miður ekki, en þannig er það stundum, við það verður þá bara að una og við verðum að taka ákvörðun um það í atkvæðagreiðslu hér í salnum.