145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

vinna stjórnarskrárnefndar.

[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekkert því til fyrirstöðu að stjórnmálaflokkarnir sameinist um breytingar á stjórnarskrá sem tryggja almenningi rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég verð hins vegar að biðja hæstv. ráðherra um að dýpka það aðeins um hvað er ekki samstaða. Er hæstv. ráðherra að segja að hann telji að það sé ekki samstaða um þjóðareign á auðlindum eða er það framsalsákvæðið sem hann telur að sé ekki samstaða um?

Þá ítreka ég fyrri spurningar: Til að við getum haft þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram forsetakosningum, verður þá ekki að skila niðurstöðu í þessari viku svo að þingið geti gert þetta að lögum fyrir jól? Og í öðru lagi: Ef samstaðan nær ekki lengra en svo að hún sé bara um þjóðaratkvæðagreiðsluna, er það þá ekki nægilega mikilvægt og stórt skref í lýðræðisátt í okkar landi til að það nægi sem ein stök breyting jafnvel þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn til að ná saman um önnur atriði sem til skoðunar hafa verið?