145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

öryggisreglur fyrir hópferðabíla og strætisvagna.

192. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svar hennar. Það var mjög greinargott svar sem skýrði þetta enn þá betur fyrir mér. Ég vil samt benda á landfræðilega legu Íslands og það að þessi lög séu yfirfærð frá nágrannaþjóðum okkar.

Talað er um tíðar ferðir inn og út úr farartækinu, það getur þá varla talist til tíðra ferða inn og út úr farartæki þó svo að farartækið stoppi við Staðarskála og svo næst á Sauðárkróki og farþegar látnir standa allan tímann.

Það er þá vonandi að þessar breytingar um standandi farþega, sem hæstv. ráðherra kom inn á í lok máls síns, nái að ganga í gegn á einhverjum tímapunkti þótt mér þyki undarlegt að takmarka standandi farþega við 18 ára aldur því að slys gera ekki boð á undan sér. Ég tel að hvort sem ekið er á 80 km hraða eða 90 og sama hvort farþeginn er 15 ára eða 18 ára þegar hann stendur getur það samt haft slæmar afleiðingar í för með sér.

Þá er spurning hvort ráðherrann telji ekki að fara eigi í þær breytingar, þannig að það sé alla vega takmarkað að einhverju leyti. Ég tel það algerlega ótækt að unglingar og þá einmitt þeir krakkar sem ég fékk spurnir af á aldrinum 15 til 17 ára, áður en þeir fá bílpróf, hafi verið látnir standa þessar vegalengdir til þess eins að komast til skóla og það í alls kyns veðrum á öllum árstímum.