145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

undirbúningur búvörusamninga og minnkuð tollvernd.

161. mál
[17:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það ber að fagna því að líta á til nýrra þátta í því hvernig semja á við bændur, sem mér skildist á hæstv. ráðherranum að stæði núna til.

Ég vil sérstaklega spyrja um eitt til að það komi fram núna þegar mjólkurkvótinn er seldur og bankarnir og fjármálastofnanir eru komnar mjög mikið inn í þetta kerfi. Mér skilst að stundum gerist það þannig að þeir geti í raun haft áhrif á markaðinn. Það skiptir mjög miklu máli að við höldum einhvern veginn í við það, að bankastofnanir séu ekki farnar að stjórna kvótaverði í þessu eins og kannski annars staðar.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég kann þetta ekki alveg niður í hin smæstu smáatriði en ég vil samt sem áður hafa uppi þau viðvörunarorð (Forseti hringir.) að litið verði til þess hvað fjárfestingin í þessu hefur breyst upp á síðkastið og passað upp á að þeir peningar fari til bænda en ekki til einhvers annars fólks.