145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem sakna þess að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur umræðuna í dag. Eins og fram hefur komið þá er fjöldamörgum spurningum um þetta mikla mál ósvarað og það er verið að taka hér skref sem yrði að mínu viti mjög erfitt að stíga aftur til baka, mjög erfitt ef þessi leið verður farin að laga það aftur. Ráðherrann skuldar okkur svör við þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar.

Ég vil lýsa undrun minni yfir því sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði um að málið hefði verið mikið rætt í nefndinni í haust. Eftir því sem ég heyri þá er það alls ekki rétt. Það var með það mál eins og sagt er hérna stundum að það var rifið út úr nefndinni og menn þóttust ekki hafa fengið svör eða fengið á fund marga fulltrúa sem þeir vildu eiga (Gripið fram í.) orðastað við. Ég vil bara lýsa undrun minni á háttalagi hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. (Forseti hringir.) Öðru á ég að venjast frá honum en hann fari ekki alveg hárrétt með hér í þessum stól.