145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp frá ríkisstjórninni um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands, færa verkefnið sem er mjög umfangsmikið og veltir milljörðum króna inn í eitt ráðuneyti á svipaðan hátt og við tækjum Vegagerð Íslands og færðum inn í samgönguráðuneytið eða innanríkisráðuneytið.

Þetta er mjög umdeilt frumvarp, en á endanum mun meiri hluti í þingsal ráða úrslitum málsins. Hæstv. ráðherra var hér við 1. umr. Svo gerist það að málið fer til þingnefndar. Ég vil fá að vita frá hv. formanni þeirrar nefndar hvort það sé rétt sem hér er sagt að málið hafi verið tekið út úr nefnd án þess að færi hafi gefist á að fara yfir allar umsagnir. (Gripið fram í.) Mér finnst eðlilegt að formaður utanríkismálanefndar standi fyrir máli sínu og skýri okkur frá hvað rétt er í því efni. Við þessar aðstæður er fráleitt annað en að hæstv. utanríkisráðherra verði við óskum (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar um að koma hingað í þingsal og gera grein fyrir sínu máli.