145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vísar til þess að í meirihlutaáliti og í greinargerð með frumvarpinu sé að finna rangtúlkanir og dylgjur. (ÖS: Ekki í meirihlutaálitinu, í greinargerðinni.) — Í greinargerðinni sé að finna rangtúlkanir og dylgjur. Þetta er í sjálfu sér alvarlegt ef rétt er, og ég er ekkert að efast um það, en það sem er alvarlegt í samhenginu í dag er að þeir sem eru ábyrgir fyrir slíkum greinargerðum séu ekki til staðar til að reyna að hrekja það og standa fyrir máli sínu. Það finnst mér vera hið alvarlega í þessu máli. Það er búið að kalla eftir því í allan dag að hæstv. utanríkisráðherra verði við umræðuna og látum vera að hann geti það ekki af einhverjum sökum, tímabundið í dag, komið til umræðunnar, en þá hefði verið lágmark að skjóta henni á frest og taka önnur mál til umfjöllunar. Það eru tugir mála frá þingmönnum sem bíða umræðu á þinginu og hefði verið hægur vandinn að taka einhver þeirra til umræðu í dag og þess vegna á morgun ef það er erfiðleikum bundið fyrir hæstv. ráðherra að mæta til þings. En mér finnst, hæstv. forseti, það vera lágmarkskrafa að þeir sem styðja frumvarpið, að sjálfsögðu horfi ég þar fyrst og fremst til hæstv. ráðherra en þá aðrir stjórnarþingmenn sem styðja þetta frumvarp, komi hér upp og verji málstað sinn. Ef þeir telja stætt á því að knýja þetta mál í gegnum þingið þá verðum við að heyra rök þeirra. Þegar sagt er að í greinargerð sé að finna dylgjur og rangtúlkanir þá er það nokkuð sem Alþingi á rétt á að fá heyrt að sé reynt að hrekja. Það finnst mér vera lágmarkskrafa.