145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mikla og góða ræðu um þetta ólukkansmál sem fært er hingað inn til Alþingis. Eins og kom fram í máli hans eru stjórnarliðar á harðahlaupum frá því að láta sjá sig eða taka þátt í þessari umræðu. Það er svo sem ekkert nýtt því miður. En þar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er fyrrverandi verkalýðsleiðtogi, formaður BSRB til langs tíma, langar mig til að spyrja hann út í starfsmannamál hvað þetta varðar.

Ég verð að hafa smáforsögu, virðulegi forseti, að þessu. Hér í þinginu liggur frammi frumvarp til laga um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Þar er farin algjörlega ný leið sem við höfum ekki séð áður um sameiningu stofnana. Ég veit að bæði ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefðum aldrei farið þannig að við sameiningu samgöngustofnana en þessi nýja leið er mörkuð af einhverri samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 2. mars 2015 þar sem þeir vitna meðal annars í tillögur hagræðingarhóps, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að fækka stofnunum o.s.frv. og svo velja þeir ákveðna leið af þremur sem lagðar eru til, en leiðin sem lögð er hljóðar svo: Öll störf lögð niður. Ný störf búin til hjá nýrri stofnun eða stofnun sem til var fyrir o.s.frv.

Ég hef gagnrýnt þetta við umræðu um það lagafrumvarp sem ég talaði um um Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun og tel að þetta sé algjörlega ný leið. Sem dæmi um það þá er til dæmis ekki vitað um biðlaunarétt.

Ég spyr því hv. þingmann: Er að hans mati ekki farin hér algjörlega ný leið, óhæf leið, þar sem aðilaskiptalög, (Forseti hringir.) sem oft hefur verið farið eftir, eru tekin úr sambandi sem auðvitað er ekki hægt með einfaldri ákvörðun ríkisstjórnar?