145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:59]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar gerðar eru skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera, þegar stofnanir eru sameinaðar eða gerðar breytingar á fyrirkomulagi, þá ber að fara að samningum og lögum. Það er vandmeðfarið að gera róttækar breytingar þegar réttindi starfsmanna eru annars vegar. Menn verða að fara mjög gætilega í þeim efnum.

Ég vek athygli á því að síðastliðið vor voru samþykkt lög hér í þinginu sem auðvelda tilflutninga á milli stofnana og milli starfssviða án þess að störf séu lögð niður. Ég man ekki betur en við tækjum þátt í umræðu um nákvæmlega það efni hér í þinginu. Ekki síst í ljósi þessa furða ég mig á því að þessi leið sé farin.

Það er eitt í þessu líka sem er rétt að íhuga. Ef þú færir mann til í starfi innan lagalegra og samningsbundinna réttinda þá varðveitir þú rétt hans og réttindi líka. Ef þú leggur starfið niður þá sviptir þú hann alla vega tímabundið rétti sínum. Hann er háðari þeim sem heldur um sprotann, svipuna eftir atvikum, þannig að það er verið að veikja réttarstöðu starfsfólksins að þessu leyti. Ég hefði haldið að ekki ætti að ráðast í neinar slíkar breytingar án þess að það sé gert í mjög náinni samvinnu við stéttarfélögin. Og vel að merkja, stéttarfélögin þurfa að sjálfsögðu að vera sér mjög meðvitandi um hvert hlutverk þeirra er og þá fyrst og fremst að standa vörð um réttindi starfsfólksins.

Svar mitt er: Já, mér finnst þetta vera harla undarlegt og kalla á sérstaka athugun af hálfu okkar í þinginu.