145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Margoft hefur komið fram í máli þingmanna í dag, bæði í athugasemdum sem gerðar hafa verið við fundarstjórn forseta og síðan í ræðum þingmanna, að þeim þyki óeðlilegt að ekki sé orðið við óskum um að annaðhvort verði gert hlé á umræðunni eða hæstv. utanríkisráðherra mæti til fundarins. Ég þakka núverandi hæstv. forseta fyrir að heita okkur því að koma ábendingum af þessu tagi á framfæri við forsætisnefnd og þá hvernig eigi að bregðast við þegar þingheimur setur fram óskir sem þessar.

Ég hef vakið máls á því að í ræðum fjölmargra þingmanna hefur verið vísað til þess að í greinargerð ráðherrans komi fram dylgjur og rangtúlkanir. Þetta eru fullyrðingar sem ekki aðeins hafa komið úr þingsal heldur hefur þessu verið haldið fram í álitsgerðum sem þinginu hafa borist.

Nú hefur það bæst við (Forseti hringir.) að því er haldið fram að þessar hugmyndir séu til orðnar til að draga úr þróunaraðstoð. Er ekki ástæða til að ráðherrann svari fyrir þetta?