145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð. Stór mál eru undir eins og fjárlög íslenska ríkisins og þingmenn heyra það í fjölmiðlum að umræðu hafi verið frestað, það hefur ekki verið tekið fyrir á fundum með formönnum þingflokka ef ég þekki málið rétt. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur og það líka hvernig ráðherrar koma ekki með mál sín hingað inn. Það kallar bara á slæleg vinnubrögð í einhverjum flýti rétt fyrir jól. Er það það sem þingið vill? Ef við værum alvörumanneskjur þá mundum við spyrna við fæti og mótmæla þessum vinnubrögðum í sameiningu, þingmenn allir. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig ráðherrarnir ætla sér að koma málum í gegnum þingið ef þeir skila þeim ekki hér inn en þeir standa síðan á fundum úti í bæ og tilkynna það að þeir ætla að klára hin og þessi mál fyrir áramót. Hvernig ætla þeir að gera það? (Forseti hringir.) Þurfa þeir ekki að eiga eitthvert samband við okkur um það? Erum við til í að hleypa öllu á hraðferð í gegn í desember? Svar mitt við því er nei og við eigum að standa saman um að fara að vinna hér almennilega.