145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur nefnilega vakið athygli að þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka ekki mikinn þátt í þessari umræðu. Þá veltir maður fyrir sér í alvöru hvort það geti verið að menn hafi gert — ég er svo léleg í samsæriskenningum — einhver kaup kaups. Þetta er eina málið sem Framsókn nær að leggja fram á þessu haustþingi, þá sé gott að ná því í gegn svo þeir hafi nú eitthvað. Það getur vel verið, þess vegna sé þetta mál svona. Ekki eru ráðherrar Framsóknarflokksins að leggja fram mál í löngum bunum sem við þurfum að vinna með, fyrir utan náttúruverndina hjá hv. umhverfisráðherra. (ÁsmD: Hið góða mál.) — Já, hið góða mál, kemur hér úr hliðarsal frá formanni þingflokks Framsóknarmanna. Hann ætti kannski að tala fyrir því að hlé yrði gert á þessari umræðu og málið sent til hv. umhverfisnefndar. Það getur vel verið að menn næðu saman um það þar, ekki var heimild fyrir því í utanríkismálanefnd.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir að við ættum að reyna að fá fram sjónarmið þeirra sem núna eru uppi á dekki eða hæstv. menntamálaráðherra, fá fram sjónarmið hans um það hvers vegna þessi kúvending varð á sjónarmiðum frá því hann komst að annarri niðurstöðu. Það væri áhugavert að heyra það. Hann virðist líka gjörþekkja málið. Það sem blasir við mér er að við erum með stofnun sem sér um að framkvæma ákveðna hluti fyrir okkur þegar kemur að þróunarsamvinnu. Hún hefur fengið lof, er talin hafa staðið sig vel. Síðan erum við með ráðuneyti sem ætlar núna að gleypa þessi verkefni inn til sín og fara út úr ráðuneyti að reka málefni þróunarsamvinnu. (Forseti hringir.) Fyrir mér er þetta skýrt. Ef menn vilja gagnsæi, skýrleika, rekjanleika þá halda þeir stofnuninni, ef menn vilja óreiðu og jafnvel reyna að láta verkefni deyja út taka þeir þetta inn í ráðuneyti.