145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki, held ég, farið áður í andsvar við hv. þingmann og ég vil þakka henni fyrir þessa ræðu og eins hina ræðuna sem hún flutti um þetta mál. Eins og hennar er von og vísa tók hún vel til varnar gegn þeirri óheillavinnu hæstv. ráðherra að ráðast gegn Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem hefur það hlutverk að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum úti um heim í fátækum löndum.

Hér hefur til dæmis komið fram að Þróunarsamvinnustofnun hefur tekist að fá aðrar þjóðir til að leggja heilan milljarð inn í verkefni sem við erum með á okkar könnu með allt of lítið fé þar sem við höfum ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar og loforð. En hv. þingmaður tekur þar vel til varna eins og hennar var von og vísa.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er líka nýr í utanríkismálum á þessu þingi. Ég tek eftir því, vegna þess að ég skoða fundargerðir nefnda þegar ég kynni mér mál, að málið var sent út til umsagnar 24. september með frest til 14. október. Þann 15. október er málið tekið fyrir og rætt. Þar má meðal annars lesa — og ég tek það fram að hv. formaður nefndarinnar Hann Birna Kristjánsdóttir boðaði forföll á þeim fundi þannig að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir stjórnaði fundi — bókað eftir beiðni frá minni hlutanum um gestakomur með leyfi forseta:

„Formaður varð við beiðninni og boðaði jafnframt að málið yrði afgreitt úr nefnd á þeim fundi“ — en sá fundur var boðaður daginn eftir.

Ég hef aldrei séð svona áður. (Forseti hringir.) Ég hef aldrei séð það að ekki sé orðið við óskum þingmanna um gesti og að því sé ekki gefinn góður tími.

Því er það spurning mín til hv. þingmanns: Hefur hv. þingmaður það á tilfinningunni að þarna hafi einhverjar ordrur verið gefnar um það frá ráðherra til nefndarfólks, samflokksmanns ráðherra í þessu tilfelli, að rífa málið út í hvelli og leyfa engar umræður um það?