145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:33]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Herra forseti. Snemmtæk íhlutun skiptir mjög miklu máli í þjónustu við einstaklinga sem hafa fengið greiningu af einhverjum toga. Þess vegna skiptir miklu máli að börn og einfaldlega allir fái þjónustu sem fyrst og komist í greiningu. Þess vegna fagna ég því að gefið hafi verið vel í aukalega til Þroska- og hegðunarstöðvar. Það mun skipta verulegu máli fyrir marga.

Þegar kemur að fullorðnum einstaklingum hef ég áhyggjur af stöðunni, en ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra sé að setja á fót starfshóp og farið verði í átak með samningi við sjúkratryggingar og Landspítalann um að 180–210 einstaklingar fái hugræna atferlismeðferð til að taka á þessum vanda. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram til góðra verka í þessum málum.