145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nefna að það er mikilvægt að búa vel um lögregluna, sér í lagi þegar kemur að mannafla og launum að mínu mati. Mér þykir bagalegt hvað lögreglumenn eru illa launaðir. Ég lít á það sem sama vandamál og steðjar oft að samfélaginu þegar einhver annar þjóðfélagshópur upplifir skilningsleysi og vanþakklæti gagnvart aðstæðum sínum og þá bregst fólk illa við, oft með mjög skelfilegum afleiðingum eins og við þekkjum. Því er mikilvægt að starfsmenn stofnana á borð við lögregluna upplifi skilning á aðstæðum sínum og upplifi þakklæti fyrir fórnir sínar í starfi, sem eru miklar.

Hins vegar get ég ekki komist hjá því að minnast á að enn er varla neitt eftirlit með lögreglunni svo telja megi. Yfir 99% hlerunarheimilda eru samþykktar á Íslandi. Það er víða pottur brotinn þegar kemur að eftirliti með lögreglunni. Þetta eru ekki rök gegn því í sjálfu sér að auka valdheimildir lögreglunnar. Þetta eru ekki heldur rök gegn því að lögreglan fái byssur. En þetta er samt forsendan fyrir því. Ef við ætlum að fara að auka valdheimildir og vopnaburð lögreglunnar, hvort sem það er í daglegum störfum eða ekki, þá verðum við að hafa innviði sem tryggja lýðræðislega aðkomu að þeim ákvörðunum, sem hefur að vísu skánað eitthvað aðeins upp á síðkastið en mætti skána heilmikið meira. Sömuleiðis þarf að vera til staðar sjálfstætt eftirlit sem hægt er að koma kvörtunum og ábendingum til sem varða ekki endilega refsiverð brot lögreglumanna heldur einfaldlega hvernig þeir haga sér, hvernig þeir koma fram við fólk, hvernig þeir meta aðstæður o.s.frv. Því meiri völd sem eru í höndum ákveðinnar stofnunar, því mikilvægara er að til staðar sé aðhald og mótvægi.

Íslendingar eru mjög lélegir að veita aðhald og mótvægi almennt og ekkert síður í þessum málaflokki. Þess vegna verðum við að laga það fyrst áður en við göngum lengra í valdheimildum og vopnabúnaði. Ef það liggur á drífum þá í því.